Frá vettvangi við Krókháls.
6 Júlí 2021 12:46

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. júní – 3. júlí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 29. júní. Kl. 19.29 var bifreið ekið frá bifreiðastæði við Krónuna vestur Flatahraun þegar hjólreiðamaður hjólaði á gangstétt í austur við Flatahraun, norðan megin götunnar, og beygði þvert yfir Flatahraun þegar árekstur varð með ökutækjunum. Hjóreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.31 var bifreið ekið norður Krókháls, en austan við Suðurlandsveg missti ökumaður stjórn á bifreiðinni og hafnaði hún á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem taldi sig hafa fengið aðsvif í aðdragandanum, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 2. júlí kl. 14.16 var bifreið ekið austur Hólasmára og inn á Hlíðarsmára þegar bifhjóli var ekið suður Hlíðarsmára og varð árekstur með ökutækjunum. Biðskylda er á Hólasmára gagnvart umferð sem ekið er um Hlíðarsmára. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild, en ökumaður bifreiðarinnar ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.