Frá vettvangi á Laugavegi.
20 Júlí 2021 13:58

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. júlí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 12. júlí kl. 18.22 var vörubifreið ekið austur Bústaðaveg og inn aðrein suður Kringlumýrarbraut og þar aftan á bifreið sem var kyrrstæð, en sú bifreið kastaðist áfram á þá næstu þar fyrir framan. Farþegi úr fremstu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 13. júlí kl. 9.35 var bifreið ekið vestur Laugaveg og beygt í vinstri beygju áleiðis suður Bolholt þegar annarri bifreið var ekið austur Laugaveg að Bolholti og varð árekstur með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 14. júlí var bifreið ekið á tvo unglinga á rafhlaupahjóli, sem voru á gangstétt við Álfatanga og hugðust þvera Skeljatanga. Engar fyrirliggjandi upplýsingar eru um ökumann bifreiðarinnar, en hann fór að vettvangi eftir stutt samskipti við unglinga. Þeir fóru að kenna sér meins er leið á daginn og voru þá færðir undir læknishendur, en annar unglinganna var illa lemstraður eftir slysið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 15. júlí. Kl. 2.47 var bifreið ekið norður Suðurlandsveg, en á móts við aðrein að Hádegismóum missti ökumaður stjórn á bifreiðinni svo hún fór útaf af veginum og valt nokkrar veltur utan vega uns hún hafnaði á hjólunum. Talið er að í aðdragandanum hafi bifreiðinni verið ekið ógætilega og á talsverðri ferð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 10.02 var rafskútu ekið á Vatnsendavegi við Þingatorg þegar ökumaður, sem var ekki með öryggishjálm, féll aftur fyrir sig af skútunni í götuna og fékk áverka á hnakka/höfði. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.