Frá vettvangi í Víkuhvarfi.
12 Júlí 2021 15:58

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. júlí, en alls var tilkynnt um 45 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 4. júlí kl. 21.41 var bifhjóli ekið suður Elliðavatnsveg, en á móts við Lindarberg féll ökumaður af hjólinu í götuna og fékk hann hjólið yfir sig. Í aðdragandanum hljóp köttur snögglega innan úr lúpínubreiðu, sem er við vegkantinn, og inn á veginn í veg fyrir hjólið svo ökumaðurinn missti stjórn á bifhjólinu með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. júlí. Kl. 15. 19 var bifreið ekið suður Háaleitisbraut inn á vegmót Bústaðavegar þegar annarri bifreið var ekið norður Háaleitisbraut áleiðis í vinstri beygju vestur Bústaðaveg þegar árekstur varð með bifreiðunum. Önnur bifreiðin valt við áreksturinn og lenti á umferðarmerki. Ökumaður hennar og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 15.22 var númerslausu léttu bifhjóli ekið í suður göngustíg við Kópavogstún, vestan við Hafnarfjarðarveg, en að sögn ökumanns ætlaði hann að fara vinstra megin fram úr hjólreiðamanni, sem hjólaði í sömu átt þegar árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.06 var bifreið ekið frá bifreiðastæði inn í Víkurhvarf þegar léttu bifhjóli var ekið eftir gangstétt við Víkurhvarfi 1 – 3 inn á veginn og í hlið bifreiðarinnar. Báðir ökumennirnir sögðu að gámar hefðu byrgt þeim sýn. Ökumaður og farþegi á bifhjólinu voru fluttir á slysadeild. Kl. 17.33 var bifreið ekið vestur Miklubraut að gatnamótum Lönguhlíðar og þar aftan á bifreið, en sú bifreið kastaðist áfram á þriðju bifreiðina sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Miðbifreiðin kastaðist enn fremur utan í víragirðingu sem aðskilur aksturstefnur austur/vestur. Einn ökumannanna vara flutur á slysadeild. Og kl. 18.39 var bifreið ekið austur Bústaðaveg inn á gatnamót Háaleitisbrautar, en þar var annarri bifreið, sem ekið var sömu leið, ekið aftan á fyrri bifreiðina. Ökumaðurinn sem ók aftan á hina sagðist ekki hafa getað brugðist við og afstýrt árekstri þegar fremri bifreiðinni var nauðhemlað. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 10. júlí kl. 10.03 var bifreið ekið suður Reykjavíkurveg, en á móts við hús nr. 76 tók ökumaður U-beygju á veginum með ætlað aksturstefnu norður Reykjavíkurveg þegar bifhjóli var ekið norður Reykjavíkurveg og varð árekstur með ökutækjunum. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.