Frá vettvangi við Bústaðaveg.
4 Ágúst 2021 13:16

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. júlí, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 26. júlí kl. 21.22 var bifreið ekið austur Breiðholtsbraut að gatnamótum Seljaskóga og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. júlí. Kl. 14.47 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg þegar annarri bifreið var ekið norður Heiðmerkurveg í vinstri beygju inn á Suðurlandsveg og varð árkekstur með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.46 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, inn á gatnamót Skógarhlíðar, og á ljósastaur og vegrið vestan við Skógarhlíð uns hún stöðvaðist í undirgöngum undir Bústaðavegi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann var grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur.

Miðvikudaginn 28. júlí kl. 18.46 var bifhjóli ekið austur Nesjavallaleið þegar ökumaður missti stjórn á hjólinu, sem hafnaði á hitaveituröri utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 29. júlí kl. 15.21 var bifreið ekið í innri hring hringtorgs við Suðurlandsbraut/Skeiðarvog og beygt áleiðis út úr torginu með aksturstefnu inn í Fákafen þegar annarri bifreið var ekið frá Suðurlandsbraut inn í ytri hring hringtorgsins svo árekstur varð með bifreiðunum. Annar ökumannanna og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild, en hinn ökumaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Föstudaginn 30. júlí kl. 21.41 var reiðhjóli hjólað eftir gangstíg/hjólastíg og ætlaði hjólreiðamaðurinn að þvera Vesturberg á móts við hús nr. 6 er hann féll af hjólinu og á kantstein. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.