6 September 2021 14:23
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. ágúst – 4. september, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. september. Kl. 13.35 var vespu ekið aftan á aðra vespu, sem var kyrrstæð, á bifreiðastæði við Varmárskóla. Báðir ökumennirnir, sem voru með öryggishjálma, féllu í götuna. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl 14.42 var reiðhjóli hjólað eftir malarstíg í Öskjuhlíð, ofan við Háskólann í Reykjavík, þegar framdekk þess rann til í lausamöl með þeim afleiðingum að hjólreiðamaðurinn datt ofan á hjólið. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 2. september. Kl. 14.50 var bifreið ekið frá sameiginlegu bifreiðastæði FB og Breiðholtslaugar í vinstri beygju norður Austurberg og þar inn á hraðahindrun, en í sömu mund gekk gangandi vegfarandi yfir hraðahindrunina og varð fyrir bifreiðinni. Aðstandandi fór með vegfarandann á slysadeild. Og kl. 23.44 var bifreið ekið suður Barónsstíg, inn á vegmót við Eiríksgötu, þegar rafhlaupahjóli var ekið austur Eiríksgötu inn á vegmót Barónsstigs svo árekstur varð. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin og er talið að grænt ljós hafi logað fyrir aksturstefnu suður Barónsstíg þegar slysið varð. Ökumaður bifreiðarinnar, sem var grunaður um fíkniefnaakstur, var handtekinn. Ökumaður rafhlaupahjólsins var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 4. september kl. 14.56 var bifreið ekið norður Eyktarás, inn á gatnamót Hraunáss, þegar hjólreiðamaður hjólaði vestur gangstétt við Hraunás áleiðis yfir Eyktarás þegar árekstur varð. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.