Frá vettvangi við Hafnarfjarðarveg.
23 Ágúst 2021 13:59

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. ágúst, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 15. ágúst. Kl. 13.58 var rafmagnshlaupahjóli ekið á öfugum vegarhluta austur Smáragerði, á móts við Stóragerði, þar sem ökumaður féll af hjólinu með andlitið í götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.56 var vespu ekið á gangandi vegfaranda á göngustíg neðan við Dynsali. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 16. ágúst kl. 16.22 var bifreið ekið suður Höfðabakka á hægri akrein, en við Fálkabakka var bifreiðinni ekið áleiðis í U-beygju norður Höfðabakka. Annarri bifreið var ekið sömu aksturleið suður Höfðabakka á vinstri akrein og varð árekstur með bifreiðunum, en önnur þeirra hafnaði á umferðarmerki svo það aflagaðist. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 21. ágúst. Kl. 13.33 var fjórhjóli ekið eftir grófum vegslóða sem er á Skeggjastaðalandi við Skarðveg þegar ökumaður missti stjórn á ökutækinu svo það valt það utan vegar með ökumanni og farþega.  Farþeginn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.33 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg, norðan við Kópavogslæk, þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún snérist á veginum og hafnaði utan vegar á vegriði og skjólgirðingu veghaldara. Ökumaðurinn, sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.