Frá vettvangi á Arnarnesvegi.
16 Ágúst 2021 15:44

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. ágúst, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 8. ágúst kl. 7.52 var bifreið ekið austur Arnarnesveg, við Salaveg, þegar annarri bifreið var ekið vestur Arnarnesveg og yfir á öfugan vegarhluta svo árekstur varð með bifreiðunum. Í aðdragandanum kvaðst síðarnefndi ökumaðurinn hafa séð flugu í mælaborði bifreiðarinnar sinnar, sem hann reyndi að koma út en missti við það sýn á veginn og ók yfir á akrein fyrir umferð á móti með fyrrgreindum afleiðingum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 9. ágúst kl. 1.58 var vespu ekið Byggðarholt inn á gatnamót Álfholts þegar bifreið var ekið austur Álfholt og varð árekstur með ökutækjunum.  Ökumaður bifreiðarinnar ók viðstöðulaust af vettvangi, en gaf sig fram síðar. Hann er grunaður um fíkniefnaakstur. Ökumaður og farþegi á vespunni voru fluttir á slysadeild, auk þess sem annar farþegi á vespunni fór sjálfur á slysadeild.

Þriðjudaginn 10. ágúst kl. 23.51var bifreið ekið austur Ánanaust frá Grandatorgi/Hringbraut þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað frá göngustíg við torgið eftir gönguleið suður yfir Ánanaust þegar árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Myrkur var á vettvangi og að sögn ökumanns var rafmagnshlaupahjólið með öllu ljóslaust og því kvaðst hann ekki hafa séð til ferða hjólsins fyrr en hann heyrði það skella í vinstri hlið bifreiðarinnar.

Miðvikudaginn 11. ágúst kl. 13.57 var bifreið ekið austur Strandgötu, neðan við Kelduhvamm, þegar ramagnshlaupahjóli var hjólað þvert yfir Standgötu á ljósastýrðri gangbraut frá Suðurhvammi í átt að Kelduhvammi þegar árekstur varð með þeim.  Hjólamaðurinn  var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. ágúst. Kl. 18.26 var bifreið ekið suður Austurkór þegar reiðhjóli var hjólað eftir göngustíg meðfram götunni og í hægri hlið bifreiðarinnar. Reiðhjólamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.07 var lögreglu var tilkynnt um bifhjólaslys sem væri á gatnamótum Bugðufljót/Brúarfljót í Mosfellsbæ. Á vettvangi mátti sjá fjölda bifreiða og að þessi staður er greinilega vinsæll til að nota í ólöglegum spyrnukeppnum. Reyndust þar tveir slasaðir bifhjólmenn og voru hjól þeirra enn fremur mjög illa farin eftir óhappið. Erfitt var að fá fram trúverðugan vitnisburð á staðnum um aðdraganda slyssins, en helst má ætla að tveir bifhjólamenn hafi verið í spyrnu sín á milli og prjónað bifhjólunum þar til annar þeirra féll með hjóli sínu yfir hinn svo þeir féllu báðir í götuna og annað hjólið endaði á bifreið sem þar var kyrrstæð. Bifhjólamennirnir ætluðu sjálfir að leita sér læknisaðstoðar.

Laugardaginn 14. ágúst kl. 11.55 var bifreið ekið vestur Þingvallaveg áleiðis í vinstri beygju norður afleggjara Skeggjastaðavegar þegar annarri bifreið var ekið austur Þingvallaveg við vegamótin og varð árekstur með bifreiðnum.  Önnur bifreiðin kastaðist til hliðar og hafnaði utan vegar með aftari hlutann ofan í skurði. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.