Frá vettvangi í Grafarvogi.
21 September 2021 17:08

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. september, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 12. september. Kl. 10.35 var bifreið ekið norður Víkurveg að hringtorgi við Korpúlfsstaðaveg og Mosaveg. Þegar ökumaður ók inni í torgið missti hann stjórn á bifreiðinni svo hún hafnaði í gróðri og á stóru tré í miðju hringtorgsins. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.54 var rafmagnshlaupahjólið hjólað um Engihjalla við Stórahjalla þegar ökumaður féll af hjólinu í götuna.  Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 13. september kl. 18.44 var bifreið ekið vestur Stekkjarbakka, inn á vegmót Stekkjarbakka, þegar annarri bifreið var ekið austur Stekkjarbakka áleiðis í vinstri beygju norður Stekkjabakka svo árekstur varð með ökutækjunum.  Báðir ökumennirnir kváðust hafa ekið móti grænu umferðarljósi, sem gengur ekki upp samkvæmt stýrikerfi ljósanna því þar er varin vinstri beygja. Tveir farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 17. september kl. 22 var haft samband við lögreglu frá Landspítalanum vegna tveggja manna, sem höfðu slasast í umferðarslysi. Annar var fluttur þangað í sjúkrabíl en hinn fór sjálfur á spítalann, en slysið hafði ekki verið tilkynnt til lögreglu. Málsatvik munu hafa verið þau að annar mannanna ók vespu frá Mosfellsbæ áleiðis í Grafarholt, hinn var á rafmagnshlaupahjóli á leið í gagnstæða átt, en tækin rákust saman á göngustíg við Úlfarsfell, við Skógræktina. Báðir voru með öryggishjálm.

Fimmtudaginn 16. september kl. 6.49 var bifreið ekið norður Bólstaðarhlíð inn á vegmót Háteigsvegar og Skipholts þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað þvert inn á vegamótin frá gangstétt á merktri gangbraut og varð árekstur með ökutækjunum.  Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 17. september kl. 12.28 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut við gatnamót að Víðidal og þar aftan á bifreið fyrir framan, en ökumaður hennar hafði hægt á ferð bifreiðarinnar vegna umferðar fyrir framan.  Bifreiðin sem ekið var aftan á kastaðist áfram þar sem hún valt og hafnaði á toppnum uppi á umferðareyju. Ökumaður bifreiðarinnar sem valt var fluttur á slysadeild, en hinn ökumaðurinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Laugardaginn 18. september kl. 17.52 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg (Ártúnsbrekku), og beygt aðrein sem liggur norður Sæbraut, þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni, sem hafnaði utan vegar og á ljósastaur. Aðspurður kvaðst ökumaður hafa tekið um farsíma sinn til þess að svara hringingu án handfrjáls búnaðar við aksturinn og því misst stjórn á bifreiðinni þegar hann hætti að horfa fram á veginn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.