Frá vettvangi á Arnarnesvegi.
29 September 2021 12:54

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. september, en alls var tilkynnt um 41 umferðaróhapp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 19. september. Kl. 14.29 var bifreið ekið frá bifreiðastæði N1/Subway í Háholti og inn á Bjarkarholt/Háholt þegar rafmagnshlaupahjóli var ekið eftir gangstíg/hjólastíg vestur Bjarkarholt/Háholt og varð árekstur með ökutækjunum. Ökumaður sagðist hafa stöðvað til þess að líta eftir umferð um Bjarkarholt, en hægra megin við útaksturinn sé þéttur gróður sem skyggði á útsýni hans. Aðstandandi flutti reiðhjólamanninn, sem var með öryggishjálm, á slysadeild, en þaðan var hringt í lögreglu og hún upplýst um slysið. Og kl. 20.55 var bifreið ekið suður Barónsstíg inn á vegmót Laugavegar þegar gangandi vegfarandi gekk austur Laugaveg, inn á Barónsstíg, og rakst utan í hlið bifreiðarinnar. Vegfrandinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 20. september. Kl. 0.17 var bifreið ekið norður Laugarnesveg og aftan á kyrrstæða og mannlausa bifreið við hægri brún vegar.  Aftan við hana var viðvörunarþríhyrningur, en í aðdragandanum kvaðst ökumaðurinn hvorki séð hann né bifreiðina fram undan. Ökumaðurinn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 14.30 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól, sem fór af gangstétt og þveraði akbraut útaksturs af bifreiðastæði við Smáralind. Ökumaðurinn fór af vettvangi án þess að huga frekar að afleiðingum slyssins, en aðstandandi flutti hjólreiðamanninn á slysadeild. Og kl. 19.39 var bifreið ekið á ljósastaur við leikskólann í Smárahvammi við Lækjarsmára.  Talið er að ökumaðurinn hafi fengið aðsvif við aksturinn, en hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 21. september kl. 18.44 var bifreið ekið vestur Arnarnesveg á Arnarnesbrú í vinstri beygju áleiðis suður Hafnarfjarðarveg þegar annarri bifreið var ekið austur Arnarnesveg inn á gatnamótin svo árekstur varð með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 22. september kl. 19.14 var bifreið ekið norður Smiðjuveg þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað þvert yfir veginn á merktri gangbraut og varð árekstur með þeim.  Hjólreiðmaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 25. september. Kl. 12.08 var bifreið ekið suður Breiðholtsbraut, en skömmu áður en komið er að göngubrú yfir veginn við Norðlingaholt var bifreiðinni ekið á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.05 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Fossvogi, en á þar á akrein lengst til hægri var bifreið kyrrstæð með viðvörunarljós á. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar reyndi  að forða árekstri og sveigði út af veginum, en ók þá á vegfaranda á grasbala þar við. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.