Frá vettvangi á Gufunesvegi.
13 Október 2021 10:17

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. október, en alls var tilkynnt um 50 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 3. október kl. 0.01 var rafmagnshlaupahjóli hjólað á Hringbraut í Reykjavík, en á móts við hús nr. 3 var hjólinu ekið utan í ljósastaur og þaðan framan á bifreið sem lagt var þar við í bifreiðastæði. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 4. október kl. 11.50 var bifreið ekið frá Gufunesi, suður Gufunesveg, og þar aftan á útstæða vörulyftu á vörubifreið, sem lagt hafði verið við hægri brún vegar.  Ökumaður vörulyftunnar kvaðst hafa stöðvað til þess að huga að farmi sem hann hafi sótt í Gufunes og sett lyftuna niður í um meters hæð til þess að komast aftur í vörukassann. Ökumaður fólksbifreiðarinnar kvaðst hafa ekið Gufunesveg á 50 -60 km/klst. með sólina í andlitið og hann hafi verið að stilla útvarpið í bifreiðinni í aðdraganda slyssins. Honum var ekið á slysadeild af aðstandanda.

Þriðjudaginn 5. október kl. 14 var bifreið ekið frá Hringbraut inn Selvogsgötu og þar á hjólreiðamann sem hjólaði yfir götuna.  Bifreiðinni var ekið áfram þar sem hún endaði á steinvegg og dróst/festist reiðhjólaðurinn undir bifreiðinni. Ökumaðurinn kvaðst hafa fipast við áreksturinn og stígið á eldsneytisgjöf í stað hemla og því hefði hann ekið áfram þar til bifreiðin stoppaði á steinvegg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 7. október. Kl. 13.17 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut, inn á aðrein sem liggur suður Reykjanesbraut en þar sem  akbrautin þrengist úr tveimur samhliða akreinum yfir í eina var bifreiðinni ekið aftan á aðra bifreið fyrir framan sem kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.15 var bifreið ekið Lágmúla til suðurs, með fyrirhugaða beygju vestur Háaleitisbraut, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað austur eftir gangstétt, sem liggur með Háaleitisbraut og inn á Vegmúla, þegar árekstur varð. Ökumaðurinn ók hjólreiðamanninum á slysadeild, en þaðan var lögreglu tilkynnt um slysið.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 8. október. Kl. 0.04 var reiðhjóli hjólað suður Rauðarárstíg, en við Skeggjagötu lenti hjólið aftan á kyrrstæðri bifreið sem lagt var þar við hægri brún akbrautar.  Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 12.03 var rafmagnshlaupahjóli hjólað vestur Borgartún þegar bifreið var ekið frá útkeyrslu húss nr. 6 og varð árekstur með þeim.  Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.24 var torfærubifhjóli ekið Heiðmerkurveg, en við Sauðahelli missti ökumaður stjórn á  hjólinu svo það lenti utanvegar með ökumanni. Ökumaðurinn, sem var með öryggishjálm en próflaus, var fluttur á slysadeild. Kl. 16.59 var bifreið ekið austur Álfhólsveg á móts við hús nr. 24 þar sem henni var ekið á fimm bifreiðar, sem voru kyrrstæðar og mannlausar í bifreiðastæði við veginn. Talið er að ökumaðurinn hafi veikst skyndilega í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.56 var bifreið ekið austur Hringbraut að Sæmundargötu þegar annarri bifreið var ekið norður Sæmundargötu og beygt austur Hringbraut.  Fyrri bifreiðinni var ekið aftan á hina, sem kastaðist yfir umferðareyju sem aðskilur aksturstefnur austur/vestur á Hringbraut og til baka aftur inn á rétta akbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn, sem var grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á lögreglustöð. Biðskylda er á Sæmundargötu gagnvart umferð sem ekið er um Hringbraut.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.