Frá vettvangi við hringtorg á mótum Vesturlandsvegar og Korpúlfsstaðavegar.
20 Október 2021 13:16

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. október, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 10. október kl. 13.45 var léttu bifhjóli ekið á gangstétt vestur Arnarbakka, en skömmu eftir að ökumaður þveraði yfir Ósabakka missti hann stjórn á hjólinu og féll með því á gangstéttina. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 11. október. Kl. 12.14 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg að hringtorgi við Korpúlfsstaðaveg og þar aftan á bifreið sem  hafði stöðvað við hringtorgið vegna umferðar í torginu. Báðar bifreiðarnar köstuðust áfram inn í torgið. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 20.56 var bifreið ekið vestur Arnarnesveg á Arnarnesbrú þegar annarri bifreið var ekið austur Arnarnesveg í vinstri beygju með fyrirhugaða akstursleið norður Hafnarfjarðarveg svo árekstur varð með ökutækjunum. Grænt ljós logar á sama tíma á ljósastýringu fyrir umferð um vegamótin vestur/austur Arnarnesveg og er ekki varin vinstri beygja í ljósastýringunni. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.13 var bifreið ekið suður Gullinbrú, en á móts við Básabryggju var bifreiðinni ekið á umferðarskilti og síðan á ljósastaur. Ökumaður reyndi afstungu frá vettvangi, en var stöðvaður af lögreglu skömmu síðar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 13. október. Kl. 19.07 var bifreið ekið norður Suðurgötu og beygt áleiðis í vinstri beygju vestur Hjarðarhaga þegar bifhjóli var ekið suður Suðurgötu svo árekstur varð með ökutækjunum. Bifhjólamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.49 var léttu bifhjóli ekið utan í reiðhjól á gangstíg sunnan við N1 á Gagnvegi. Bifhjólamaðurinn ók rakleiðis af vettvangi, en hjólreiðamaðurinn náði sjálfur að komast til síns heima. Þaðan hringdi aðstandandi í lögreglu og upplýsti um málið og fór svo með hjólreiðamanninn á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.