Frá vettvangi við Vesturlandsveg.
2 Nóvember 2021 16:36

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. október, en alls var tilkynnt um 42 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 24. október kl. 13.15 var bifreið ekið norður bifreiðastæði við Bauhaus við Lambhagaveg þegar annarri bifreið var ekið henni á hægri hönd frá bifreiðastæðum inn á aksturleiðina svo árekstur varð. Almennur umferðarréttur gildir á bifreiðstæðinu. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 25. október kl. 7.46 var bifreið ekið norður Kársnesbraut og beygt áleiðis að bifreiðastæði við hús nr. 112 þegar hjólreiðamaður hjólaði suður Kársnesbraut og lenti hjólreiðamaðurinn framan á bifreiðinni. Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa verið á lítilli ferð en ekki séð hjólreiðamanninn fyrr en hann lenti á bifreiðinni og féll í götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 26. október. Kl. 16.42 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg, frá Kópavogslæk, en þegar ökumaður kom að aðrein að Arnarnesvegi/Arnarnesbrú þá kvaðst hann hafa verið óviss hvort hann ætti að aka aðreinina eða halda áfram akstri suður. Við það missti hann einbeitinguna við aksturinn og ók aftan á bifreið fyrir framan, en ökumaður hennar hafði stöðvað vegna umferðar á undan. Síðartaldi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.19 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg, á móts við Lágafellskirkju, þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni, sem endaði utanvegar upp við klettaveg sem þar er. Ökumaðurinn kvaðst telja að hann hafi dottið út og muna síðast þegar hann ók fram hjá Bauhaus við Lambhagaveg og svo næst þar sem hann lá í jörðinni utan við bifreiðina. Ökumaðurinn, sem var allsgáður, var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 27. október kl. 15.17 var bifreið ekið norður Holtsgötu inn á Framnesveg þegar hjólreiðamaður hjólaði rafmagnsreiðhjóli austur Framnesveg á akbrautinni þegar árekstur varð. Biðskylda er fyrir umferð um Holtsgötu gagnvart umferð um Framnesveg. Reiðhjólamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 29. október kl. 23.03 var bifreið ekið suður Skemmuveg, frá BYKO, inn á gatnamót Nýbýlavegar með fyrirhugaða aksturstefnu áfram suður Dalveg þegar annarri bifreið var ekið austur Nýbýlaveg inn á gatnamótin svo árekstur varð.  Umferð um gatnamótin er stýrt með umferðarljósum en báðir ökumennirnir kváðu grænt ljós hafa logað á götuvitum fyrir aksturstefnu þeirra. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn fór þangað á eigin vegum.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.