Frá vettvangi við Álftanesveg.
9 Nóvember 2021 10:19

Í síðustu viku lést einn vegfarandi og níu slösuðust í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. október – 6. nóvember, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 31. október kl. 21.33 var bifreið ekið vestur Miklubraut, inn á gatnamót Grensásvegar, þegar reiðhjóli var hjólað utan við gangbraut vestan gatnamótanna á akbrautinni norður Grensásveg yfir Miklubraut þegar árekstur varð. Ökumaður bifreiðarinnar kvað grænt ljós hafa logað fyrir aksturstefnu hans svo og reiðhjólamaðurinn sem sagði grænt ljós hafa logað fyrir gangbraut norður yfir Miklubraut. Reiðhjólamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 2. nóvember. Kl. 18.13 var bifreið ekið úr hringtorgi við Vatnsendaveg inn á merkta gangbraut, sem þverar Þingmannaleið, þegar hjólreiðamaður á rafmagnshlaupahjóli þveraði gangbrautina og varð árekstur með þeim. Hjóreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 21.50 var bifreið ekið Álftanesveg við Garðahraun þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún valt utan vegar. Ökumaður, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.40 var bifreið ekið suður Norðurströnd og breygt vestur Suðurströnd þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún  hafnaði á ljósastaur. Vatnslögn við götuna lak og hafði vatn frosið á veginum vegna kulda. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 3. nóvember. Kl. 15.21 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg í botni Kollafjarðar á Kjalarnesi þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún valt og hafnaði utan vegar í ræsi austan við veginn. Hálka var á veginum og liggur vegurinn í upphækkun í átt að Álfsnesi.  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.03 var bifreið ekið suður Hvalfjarðarveg frá Laxá í Kjós, en á móts við félagsheimilið Félagsgarð þá missti ökumaður stjórn á bifreiðinni svo hún valt utan vegar. Hálka var á vettvangi. Farþegi í bílnum lést og ökumaðurinn slasaðist alvarlega. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.