15 Nóvember 2021 14:03
Í síðustu viku lést einn vegfarandi og átta slösuðust í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. nóvember, en alls var tilkynnt um 21 umferðaróhapp í umdæminu.
Fimm umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. nóvember. Kl. 0.25 var rafmagnshlaupahjóli hjólað á gangstétt á Barónsstíg við Bergstaðastræti þar sem reiðhjólamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, féll af hjólinu og á gangstéttina. Hjólið var búið negldum hjólbörðum, en gangstéttin var þurr og hálkulaus. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Banaslys varð norðan gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar um morguninn þegar rafmagnshlaupahjól og létt bifhjól rákust þar saman. Annar ökumannanna lést og hinn slasaðist alvarlega. Tilkynning um slysið barst kl. 8.08, en myrkur og blautt var á vettvangi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Kl. 10.32 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, en á móts við söluturninn Póló var henni ekið aftan á kyrrstæða bifreið. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar beið vegna umferðar á móti til þess að taka vinstri beygju inn á bifreiðastæði við söluturninn. Á yfirborði vegar er máluð óbrotin hindrunalína sem er farin að slitna þar sem árekstur varð. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á var fluttur á slysadeild. Kl. 17.35 var bifreið ekið vestur Þverholt frá hringtorgi við Vesturlandsveg, en sunnan við Kjarnatorg var henni ekið aftan á bifreið fyrir framan. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á hafði stöðvað vegna umferðar þar fyrir framan, sem hafði stöðvað við merkta gangbraut þar sem að gangandi vegfaranda þveraði akbrautina. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.50 var léttu bifhjóli ekið austur Kirkjustræti og þar á lokunarslá við Alþingishúsið og féllu bæði ökumaður, sem er grunaður um ölvunarakstur, og farþegi, sem var á hjólinu, í götuna. Þeir voru báðir fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.