Frá vettvangi í Kópavogi.
24 Nóvember 2021 14:57

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. nóvember, en alls var tilkynnt um 43 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 14. nóvember kl. 19.19 var bifreið ekið í gegnum aksturshurð bílageymslu við Vatnsstíg. Ökumaður kvaðst vera með aðgangskort að bílageymslunni í framrúðu bifreiðarinnar og ætti hurðin að vera stillt með þeim hætti að hún opnaðist sjálfkrafa þegar ekið væri að henni. Það hefði hún hins vegar ekki gert í þetta skipti og hann ekki gætt að sér og ekið í gegnum hurðina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 16. nóvember kl. 11.14 var bifreið ekið suður Gullinbrú að Dverghömrum þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún fór utan vegar á ljósastaur. Þaðan kastaðist bifreiðin yfir á öfugan vegarhluta og til baka aftur þeim megin sem bifreiðin fór útaf fyrst. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 17. nóvember. Kl. 7.53 var léttu bifhjóli og reiðhjóli ekið framan á hvort annað á göngustíg vestan við Sævarhöfða, sunnan við Bryggjuhverfi. Létta bifhjólinu var ekið í austur og reiðhjólinu var hjólað í vestur, en þegar þau mættust vék reiðhjólamaðurinn til hægri en bifhjólamaðurinn til vinstri og skullu þeir harkalega saman og féllu á stíginn.  Reiðhjólamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild, en bifhjólamaðurinn fór af vettvangi áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn. Og kl. 11.57 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg, frá Breiðholtsbraut, inn á gatnamót Dalvegar þegar annarri bifreið var ekið norður Dalveg inn á gatnamótin með ætlaða aksturleið áfram í átt að BYKO þegar árekstur varð með þeim. Umferð um vegamótin er stýrt með umferðarljósum og samkvæmt vitni logaði rautt ljós fyrir umferð vestur/austur Nýbýlaveg en grænt ljós fyrir umferð um Dalveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild, en annar þeirra var ekki með öryggisbelti spennt þegar áreksturinn varð.

Fimmtudaginn 18. nóvember kl. 11.28 var bifreið ekið norður Höfðabakka í hægri beygju á framhjáhlaupi við gatnamót Bíldshöfða með ætlaða aksturstefnu að Höfðabakka 9 þegar gangandi vegfarandi gekk norður yfir gönguþverun sem þar er á gatnamótunum. Bifreiðinni var ekið á vegfarandann, en biðskyldumerki er fyrir framan gönguþverunina en ógreinileg biðskyldulína fyrir aftan þverunina á framhjáhlaupið gagnvart umferð um Bíldshöfða. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 19. nóvember. Kl. 18.07 var bifreið ekið austur Borgartún, við gatnamót Sundlaugavegar og Laugarnesvegar, og beygt í vinstri beygju áleiðis norður Laugarnesveg þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað í austur, norðan við Borgartún, inn á gönguleið sem þverar Laugarnesveg við gatnamótin.  Árekstur varð með þeim, en hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Framkvæmdir eru við gatnamótin og eru upp vinnustaðamerkingar. Og kl. 18.10 var bifreið um Erluás og á gangandi vegfaranda sem þveraði götuna. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild af aðstandanda.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.