Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.
9 Desember 2021 11:16

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. nóvember – 4. desember, en alls var tilkynnt um 41 umferðaróhapp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 28. nóvember. Kl. 14.56 var bifreið ekið suður Arnarnesveg á hægri akrein inn í Leirdalstorg í ytri hring með fyrirhugaða aksturleið áfram suður Arnarnesveg. Annarri bifreið, sem ekið var sömu leið inn í hringtorgið á vinstri akrein í innri hring torgsins, var beygt áleiðis út úr torginu með fyrirhugaða aksturleið um Fífuhvammsveg þegar árekstur varð. Ökumaður bifreiðarinnar sem var í innri hring kvaðst hafa gefið stefnumerki í tíma um að hann ætlaði út úr torginu. Farþegi í annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Kl. 15.30 var bifreið ekið suður Dalveg inn í hringtorgið á gatnamótum Dalvegar og Digranesvegar.  Þar var bifreiðinni beygt til hægri út úr torginu inn á  Digranesveg  þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað eftir göngustíg í norður yfir merkta gangbraut á Digranesvegi við hringtorgið þar sem árekstur varð. Hjólreiðamaðurinn lenti á vinstri framhlið bifreiðarinnar og kastaðist í götuna með hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.39 var bifreið ekið vestur Hlíðarberg frá Hlíðartorgi í átt að Lækjargötu inn á merkta gangbraut sem þar er á Hlíðarbergi á móts við verslunina Iceland. Í sömu mund gekk gangandi vegfarandi norður yfir gangbrautina og skall hann á vinstri hlið bifreiðarinnar þar sem hann lenti upp á vélarhlíf og féll síðan í götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 29. nóvember kl. 16.08 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg við Arnarnesbrú og þar aftan á bifreið fyrir framan. Ökumaður bifreiðarinnar fyrir framan hafði hægt á ferð bifreiðar sinnar vegna mikillar og hægrar umferðar fyrir framan hann. Mikil umferð var og snjókoma þegar áreksturinn varð og gekk umferð mjög hægt fyrir sig. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 30. nóvember kl. 18.35 var bifreið ekið út úr hringtorgi við Suðurlandsbraut norður Skeiðarvog inn á göngu- og hjólaleið/hraðahindrun sem þar er norðan við torgið.  Á sama tíma var rafmagnshlaupahjóli hjólað austur göngu- og hjólastíg þvert yfir Skeiðarvog eftir göngu/hjólaleiðinni og lenti það á vinstra framhorni bifreiðarinnar. Hjólreiðamaðurinn kastaðist upp í loftið og lenti í götunni. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. desember. Kl. 23.47 var bifreið ekið austur Miklubraut, en á móts við hús nr. 18 missti ökumaður stjórn á bifreiðinni svo hún fór utan í vegrið hægra megin akbrautar. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.47 var lögreglubifreið ekið vestur frárein frá Höfðabakka sem liggur vestur Vesturlandsveg og höfðu lögreglumenn gefið bifreið fyrir framan lögreglubifreiðina stöðvunarmerki  með bláum forgangsljósum/stöðvunarljósum til þess að hafa afskipti af ökumanni hennar.  Ökumaður bifreiðarinnar, sem lögreglumenn ætluðu að hafa afskipti af,  stöðvaði hins vegar snögglega fyrir framan lögreglubifreiðna á vinstri rein fráreinar/aðreinar. Lögreglubifreiðin var því stöðvuð snögglega á sama stað, en í sömu mund var bifreið sem á eftir kom ekið aftan á lögreglubifreiðina svo hún kastaðist áfram á bifreiðina fyrir framan, sem lögreglumennirnir ætluðu að hafa afskipta af. Fimm voru fluttir á slysadeild eða fóru þangað á eigin vegum.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.