Frá vettvangi á Kringlumýrarbraut.
14 Desember 2021 11:58

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. desember, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 6. desember kl. 9.01 var ökumaður að leggja bifreið í stæði við Þórðarhöfða en í stað þess að setja sjálfskiptingu í „P“ þá setti hann stillingu hennar af misgáningi í „R“ (í gangi og ekki í handbremsu) og steig út úr bifreiðinni. Þegar hann steig út fór bifreiðin að renna afturábak svo ökumaður missti jafnvægið og féll í götuna með fótinn undir bifreiðina og fór hún yfir fót hans. Bifreiðin stöðvaðist fljótlega þar sem ökumannshurðinn hafnaði á stóru gróti sem var skammt aftan við bifreiðina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 7. desember. Kl. 20.49 var bifreið ekið suður Dalshraun, inn á gatnamót Stakkahrauns, þegar annarri bifreið var ekið austur Stakkahraun og varð árekstur með bifreiðunum. Biðskylda er fyrir umferð um Dalshraun gagnvart umferð um Stakkahraun. Samkvæmt lögregluskýrslu voru allar rúður bifreiðarinnar sem fór um Dalshraun þaktar snjó og/eða hélaðar og því var útsýni ökumanns mjög skert. Ökumaður fyrri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.10 var tilkynnt til lögreglu að ekið hafði verið á gangandi verfaranda við Bíldshöfða 9. Vettvangur er húsagata, sem liggur norður/suður við Bíldshöfða 9 á móts við Apótekið Höfðinn og Höfðinn mathöll, en bifreiðastæði eru vestan við götuna. Ökumaðurinn, sem er próflaus, kvaðst hafa ekið mjög hægt en ekki séð gangandi vegfarandann fyrr en hann lenti á bifreiðinni. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 10. desember kl. 18.28 var bifreið ekið austur Arnarnesveg, en rétt austan við hringtorg Fífuhvammsvegar og Bæjarhrauns var henni ekið aftan á bifreið fyrir framan. Ökumaður þeirrar bifreiðar hafði stöðvað við merkta gangbraut sem þar er til þess að hleypa gangandi vegfarenda yfir götuna. Ökumaðurinn sem ók aftan á hina bifreiðina er próflaus og kvaðst hafa verið að stilla útvarp bifreiðarinnar og því litið af veginum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 11. desember kl. 10.55 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut, en við frárein inn á Bústaðveg var henni ekið aftan á mannlausa bifreið sem skilin hafði verið eftir að hluta á akbrautinni (þeirri akrein sem lengst er til hægri) og að hluta á grasi utanvegar.  Eigandi mannlausu bifreiðarinnar kvað bifreiðina hafa bilað og hann hefði reynt að koma  henni eins lagt utanvegar og mögulegt var.  Auk þess kvaðst hann hafa sett á hættuljós bifreiðarinnar og viðvörunarþríhyrning u.þ.b. 10 skrefum aftan við bifreiðina. Kvaðst hann strax hafa reynt að gera ráðstafanir um brottflutning bifreiðarinnar, en ekið hefði verið á bifreiðina um 10 mínútum eftir að hann skildi við hana. Ökumaður bifreiðarinnar sem ók aftan á hina var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.