22 Desember 2021 13:11
Í síðustu viku slösuðust þrír vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. desember, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 13. desember kl. 17.59 var bifreið ekið suður Þverbrekku inn á merkta gönguleið við Álfhólfsveg og þar á gangandi vegfaranda sem gekk yfir gönguleiðina. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Yfirborðsmerking er á vegi um gangbraut, en engin umferðarmerki eru uppi fyrir merkta gangbraut. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Þverbrekku gagnvart umferð um Álfhólsveg. Bifreið sem ekið var á móti (norður) hafði stöðvað fyrir gangandi vegfarandanum til þess að hleypa honum yfir veginn þegar umferðarslysið varð.
Fimmtudaginn 16. desember kl. 7.13 var bifreið ekið norður Krísuvíkurveg að hringtorgi við Hraunhellu þegar ökumaður missti stjórn á henni svo bifreiðin hafnaði á ljósastaur og þaðan kastaðist hún utanvegar og hafnaði í grófu hrauni. Ökumaður kvaðst hafa ekið á 50–55 km hraða þegar „einhver“ bifreið svínaði fyrir hann en hann reynt að koma í veg fyrir árekstur með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 18. desember kl. 8 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg, en við Gunnarshólma ók ökumaðurinn út af veginum í gegnum túngirðingu og áfram inn á tún samsíða veginum þar sem bifreiðin stöðvaðist. Ökumaðurinn, sem er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.