12 Janúar 2022 16:00
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. janúar, en alls var tilkynnt um 49 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 3. janúar kl. 17.07 var bifreið ekið suður Miðhraun með fyrirhugaða aksturleið inn hringtorg við gatnamót Austurhrauns þegar reiðhjóli var hjólað suðurvestur Miðhraun á gangstétt, en beygt yfir götuna á gangbraut/gönguleið sem þverar Miðhraun við hringtorgið svo árekstur varð. Þarna eru uppi umferðarmerki um gangbraut við hægri brún vegar, en engin umferðarmerki eru á miðeyju auk þess sem engin er yfirborðsmerking á vegi fyrir merkta gangbraut. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur af aðstandanda á slysadeild.
Þriðjudaginn 4. janúar kl. 16.28 var bifreið ekið norður Nóatún með fyrirhugaða akstursleið inn í hringtorg við gatnamót Borgartúns þegar gangandi vegfarandi gekk austur yfir götuna á merktri gangbraut og hafnaði á bílnum. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 6. janúar. Kl. 3.45 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut en vestan við Straumsvík hafnaði hún á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja, var fluttur á slysadeild. Vonskuveður var á vettvangi með rigningu og roki og gekk á með hvössum vindhviðum. Og kl. 21.44 var bifreið ekið norður Skólaveg þegar gangandi vegfarandi „hljóp“ vestur yfir götuna í veg fyrir bifreiðina. Ökumaðurinn kvaðst hafa reynt að koma í veg fyrir að aka á vegfarandann með því að hemla og sveigja frá en vegfarandinn hafi lent utan í bifreiðinni og hún síðan hafnað á kyrrstæðri og mannlausri bifreið við götuna. Sá síðarnefndi var fluttur á slysadeild. Mikil hálka var á vettvangi.
Föstudaginn 7. janúar kl. 19.35 var vöruflutningabifreið ekið suður Vesturlandsveg á Esjumelum og fólksbifreið var ekið norður Vesturlandsveg. Rétt norðan við Leirvogsá missti ökumaður fólksbifreiðarinnar stjórn á bifreiðinni svo hún fór yfir á öfugan vegarhluta og árekstur varð með bifreiðunum. Ökumaður vöruflutningabifreiðarinnar kvaðst hafa reynt að koma í veg fyrir árekstur með því að aka alveg út í vegkant hægra megin. Vegkanturinn gaf sig svo vöruflutningabifreiðin valt út af veginu og á hægri hliðina vestan við veginn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Vonskuveður var á svæðinu þegar umferðarslysið varð, snjókrapi með hálku á vegi og gekk á með hvössum vindhviðum.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.