Frá vettvangi í Grafarvogi.
18 Janúar 2022 13:04

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. janúar, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 11. janúar. Kl. 7.42 hjóluðu tveir hjólreiðamenn á eftir hvor öðrum vestur göngustíg við Arnarbakka og ætluðu þeir áfram norður göngustíg austan við Núpabakka í átt að Breiðholtskóla. Þar rann fremri hjólreiðamaðurinn í hálku og féll í götuna með hjóli sínu. Aftari hjólreiðamaðurinn reyndi að hemla til þess að koma í veg fyrir árekstur, en rann á hálum stígnum á þann fyrri án þess að detta. Fremri hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.23 var bifreið lagt framan við inn- og útkeyrsludyr að bílageymslu við Vatnsstíg til þess ferma hana. Á meðan á því stóð var annarri bifreið ekið frá bílageymslunni við þröngar aðstæður með þeim afleiðingum að maður klemmdist á milli farmsins og kyrrstæðu bifreiðarinnar. Maðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 12. janúar kl. 11.09 var fólksbifreið ekið á hægri akrein suður Strandveg og vörubifreið var ekið á vinstri beygjuakrein sömu leið að gatnamótum Hallsvegar/Gullinbrúar þegar árekstur varð með bifreiðunum. Við áreksturinn missti ökumaður fólksbifreiðarinnar stjórn á henni og hafnaði bifreiðin á umferðarljósastýringu gatnamótanna. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 14. janúar kl. 7.25 var bifreið ekið vestur Hverfisgötu og beygt í vinstri beygju áleiðis inn Traðarkotssund og á gangandi vegfaranda sem gekk vestur yfir gangstéttina. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 15. janúar kl. 23.22 datt hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli og rotaðist. Hjólreiðamaðurinn var á göngustíg við Suðurgötu í átt að Sæmundargötu þegar hjólið rann skyndilega til í slabbi, sem var á stígnum, með fyrrgreindum afleiðingum. Viðkomandi komst til sín heima, en þar hringdi aðstandandi eftir sjúkrabíl, sem kom og flutti hjólreiðamanninn á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.