Á vettvangi á gatnamótum Nýbýlavegar og Breiðholtsbrautar.
7 Febrúar 2022 09:07

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. janúar – 5. febrúar, en alls var tilkynnt um 48 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 30. janúar. Kl. 2.48 var bifreið ekið vestur Sæbraut þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún fór utan vegar og hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Snjóföl og hálka var á vettvangi. Kl. 13.31 var bifreið ekið frárein í suður frá Reykjanesbraut inn á gatnamót brúar yfir Reykjanesbraut/Breiðholtsbraut/Nýbýlaveg með fyrirhugaða akstursleið austur Breiðholtsbraut. Á sama tíma var annarri bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut í vinstribeygju með fyrirhugaða aksturleið suður Reykjanesbraut þegar árekstur varð með bifreiðunum. Að sögn vitna var fyrri bifreiðinni ekið gegn rauðu umferðarljósi, en seinni bifreiðinni mót grænu ljósi á ljósastýringu gatnamótanna. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Snjókrapi og hálka var á vettvangi. Kl. 18.59 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg yfir gatnamót Litluhlíðar þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún fór utan vegar og hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Snjókrapi og hálka var á vettvangi. Kl. 19.56 var bifreið ekið norður Lækjargötu, inn á gatnamót Bankastrætis, þegar gangandi vegfarandi gekk austur yfir Lækjargötu á gatnamótunum og varð fyrir bifreiðinni. Samkvæmt vitni og eftirlitsvélum miðborgarinnar þá var grænt ljós fyrir umferð norður/suður Lækjagötu, en rautt ljós fyrir gangandi vegfarandann sem þveraði Lækjargötu. Sá var fluttur á slysadeild. Og kl. 20 var bifreið ekið vestur Bragagötu, inn á gatnamót Bergstaðastrætis, þegar annarri bifreið var ekið norður Bergstaðastræti og varð árekstur með bifreiðunum. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Biðskylda er fyrir umferð um Bragagötu gagnvart umferð um Bergstaðastræti. Snjór var á vettvangi og gekk á með snjóéljum.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 31. janúar. Kl. 11.29 var bifreið ekið frá Gaukshólum inn á Vesturhóla þegar bifreið var ekið suður Vesturhóla og varð árekstur með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Biðskylda er fyrir umferð um Gaukshóla gagnvart umferð um Vesturhóla, en þar eru bílskúrsbyggingar sem skyggja verulega á sýn til norðurs á umferð suður Vesturhóla. Og kl. 13.17 var bifreið ekið aðrein (beygjuvasa) frá Kringlumýrarbraut með fyrirhugaða aksturleið austur Miklubraut og þar aftan á bifreið fyrir framan, sem ekið var sömu leið, en sú bifreið kastaðist áfram á þriðju bifreiðina þar fyrir framan. Ökumaður fremstu bifreiðairnnar beið vegna umferðar austur Miklubraut yfir gatnamót Kringlumýrarbraut vegna biðskyldu við gatnamótin eftir því að komast inn á Miklubraut í austur þegar árekstur varð. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 2. febrúar kl. 18.17 var bifreið ekið austur Suðurhóla að Hólabrekkuskóla þar sem ökumaður ók á umferðarmerki (gátskjöld) og ljósastaur, sem á var fest umferðarmerki fyrir gangbraut. Eldur kviknaði undir vélarhlíf bifreiðarinnar og kom íbúi úr nærliggjandi húsi með handslökkvitæki á vettvang og náði hann að slökkva eldinn áður en viðbragðsaðilar mættu á staðinn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 4. febrúar. Kl. 15.38 var bifreið ekið í innrihring í hringtorgi gatnamóta Suðurlandsbrautar/Fákafens/Skeiðarvogs og beygt áleiðis út úr torginu með fyrirhugaða akstursleið vestur Fákafen. Við útaksturinn var bifreiðinni ekið aftan á vinstra afturhorn bifreiðar, sem ekið var í ytri hring torgsins frá Suðurlandsbraut með fyrirhugaða akstursleið suður Skeiðarvog. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.53 var vörubifreið ekið suður Breiðhöfða og beygt í vinstri beygju austur Bíldshöfða, en á sama tíma þveraði gangandi vegfarandi suður yfir Bíldshöfða. Vörubifreiðinni var ekið á vegfarandann. Hann var fluttur á slysadeild. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin og logar grænt ljós samtímis fyrir gangbrautina norður/suður yfir Bíldshöfða og akandi umferð frá Breiðhöfða/Hraunbæ inn á Bíldshöfða.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 5. febrúar. Kl. 4.41 var vörubifreið (snjóruðningstæki og saltari) ekið vestur Gömlu Hringbraut inn í hringtorg á vegamótum Njarðargötu/Sóleyjargötu þegar bifreiðin valt yfir á hægri hlið inn í torginu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 9.58 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Ártúnsbrekku, á vinstri akrein, þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún snérist á veginum, en bifreið sem á eftir kom var þá ekið á fyrri bifreiðina. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn fór þangað á eigin vegum. Hálka, snjóþekja og þæfingur var á vettvangi.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.