Frá vettvangi á gatnamótum Hálsabrautar og Dragháls.
1 Mars 2022 15:54

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. febrúar, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 20. febrúar. Kl. 9.55 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg, við Bláfjallaafleggjara, en ökumaður skipti yfir á vinstri akrein vegna bifreiðar fyrir framan sem sat föst í sjó á veginum en þá vildi ekki betur til en ökumaður ók í snjóskafl. Bifreiðin nam staðar í skaflinum og festist en tveimur bifreiðum sem var ekið á eftir var ekið aftan á hvor aðra og höfnuðu bifreiðarnar allar þrjár í einum árekstri. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Mikill snjór var á veginum, sem hafði dregið í skafla vegna skafrennings og því ófærð á vettvangi. Og kl. 14.20 var bifreið ekið norður Lönguhlíð þegar annarri bifreið var ekið vestur Úthlíð, inn á Lönguhlíð og varð árekstur með bifreiðunum.  Biðskylda er fyrir umferð vestur Úthlíð gagnvart umferð um Lönguhlíð. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 21. febrúar kl. 13.29 var vörubifreið ekið suður Hálsabraut að gatnamótum Dragháls þegar fólksbifreið var ekið austur Dragháls inn á Hálsabraut og varð árekstur með bifreiðunum. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Dragháls gagnvart umferð um Hálsabraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 26. febrúar kl. 9.23 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, en undir umferðarbrú Breiðholtsbrautar og Nýbýlavegar missti ökumaður stjórn á bifreiðinni og hafnaði hún á brúarvegg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Hann kvaðst hafa misst stjórn á bifreiðinni í vatnselg sem var í hjólförum.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.