Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
21 Mars 2022 16:17

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. mars, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 15. mars. KL. 17.52 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut þegar ökumaður missti stjórn á henni skammt vestan við  Straumsvík. Bifreiðin rann yfir á öfugan vegarhluta og utan í bifreið sem ekið var á móti (sú bifreið lenti utan vegar) og þaðan rann bifreiðin stjórnlaust áfram á tvær aðrar bifreiðar til viðbótar, sem einnig var ekið vestur Reykjanesbraut. Fjórar bifreiðar lentu í þessum árekstri, en hálka var á veginum. Tveir ökumenn og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.05 var bifreið ekið norður Hlíðarberg inn í Hlíðartorg þar sem ökumaður missti stjórn á henni og hafnaði bifreiðin inn á torginu og stöðvaðist á stóru grjóti sem þar er. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Snjór og hálka var á veginum.

Fimmtudaginn 17. mars kl. 12.15 var bifreið ekið austur Hallsveg að gatnamótum Víkurvegar þar sem ökumaður missti stjórn á henni svo bifreiðin rann stjórnlaust inn á gatnamótin og þar í hlið bifreiðar sem ekið var suður Víkurveg. Annar ökumannanna var fluttir á slysadeild. Snjókrapi var á veginum.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 18. mars. KL. 0.12 var bifreið ekið norður Seljabrekku á vegrið við Dalbrekku. Ökumaður taldi sig hafa ekið á um 50 km hraða þegar hann sagði stýri bifreiðarinnar hafa læst og hann því misst stjórn á bifreiðinni svo hún hafnaði utan í vegriði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.38 var fjórum bifreiðum ekið austur Miklubraut frá Háaleitisbraut og var þeirri fremstu hemlað vegna umferðar á undan með þeim afleiðingum að árekstur varð með þeim öllum. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 19. mars kl. 11.30 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut inn á gatnamót Háaleitisbrautar þegar annarri bifreið var ekið austur Háaleitisbraut inn á gatnamótin og varð árekstur með bifreiðunum. Samkvæmt framburði vitna var rautt ljós á götuvitum fyrir akstursstefnu suður/norður Kringlumýrarbraut en grænt ljós á götuvitum fyrir umferð austur/vestur Háaleitisbraut þegar áreksturinn varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.