Frá vettvangi á Reykjanesbraut við álverið í Straumsvík.
19 Apríl 2022 13:13

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. apríl, en alls var tilkynnt um 26 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 11. apríl. Kl. 16.05 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut, rétt austan við álverið í Staumsvík, og beygði ökumaður til hægri út á vegöxl og beið færis að taka U-beygju á veginum austur Reykjanesbraut. Þegar ökumaður taldi óhætt vegna umferðar að þvera veginn með U-beygju ók hann af stað, en þá var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut svo árekstur varð með bifreiðunum. Óbrotin miðlína/hrindrunarlína er á miðju vegar sem bannar nefnda beygju. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.05 var fjórhjóli ekið frá bifreiðastæði við Flataskóla inn á göngustíg sem liggur að undirgöngum undir Vífilstaðaveg, en þar missti ökumaðurinn stjórn á því. Farþegi á hjólinu var fluttur á slysadeild, en ökumaðurinn lét sig hverfa af vettvangi áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn. Hann fannst svo síðar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. apríl. Kl. 14.40 var bifreið ekið á innri hring FH-torgsins við Fjarðarhraun/Flatahraun/Bæjarhraun og beygt áleiðis út úr torginu norður Bæjarhraun þegar vörubifreið var ekið á ytri hring í torginu og varð árekstur með bifreiðunum. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.21 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg á vinstri akrein, en skömmu áður en ökumaður kom að hringtorgi við Skarhólabraut var bifreiðinni ekið á aðra bifreið sem var kyrrstæð fyrir framan. Sú kastaðist áfram á þriðju bifreiðina, sem einnig var kyrrstæð vegna umferðar á undan. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 13. apríl kl. 13.59 var bifhjóli ekið norður Garðaveg, en rétt norðan við gatnamót að Hliðsnesi missti ökumaður stjórn á hjólinu og féll með því í götuna. Hann kvað afturdekk skyndilega hafa fest/farið í bremsu og því hefði svo farið, þ.e. misst stjórn á hjólinu. Ökumaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 16. apríl kl. 16.57 var bifreið ekið norður Víkurveg, en skammt frá gatnamótum Hallsvegar ók ökumaður á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.