Frá vettvangi á Sundlaugavegi.
19 Maí 2022 12:52

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. maí, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 8. maí. Kl. 14.20 var bifreið ekið suðvestur Standgötu á móts við Íshús Hafnarfjarðar inn á merkta gangbraut, sem þverar veginn, á sama tíma og gangandi vegfarandi fór suðaustur yfir Strandgötu á gangbrautinni.  Vegfarandinn var að koma úr strætisvagni sem var kyrrstæður í biðstöð STRÆTÓ aftan við gangbrautina og fór hann fram fyrir vagninn og hljóp inn á gangbrautina þegar slysið varð að sögn vitnis. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.13 varð reiðhjólaslys með þeim hætti að samferðarmenn voru að hjóla sama stíginn í norður við Stekkjarbakka þegar þeir hjóluðu saman svo árekstur varð og þeir féllu á stíginn með hjólunum. Báðir voru með öryggishjálm. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 10. maí kl. 22.01 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg. en inn í Kópavogsgjánni missti ökumaður stjórn á bifreiðinni og hafnaði hún á vegriði.  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Hann taldi að sprungið hefði á öðrum framhjólbarðanum í aðdraganda slyssins.

Miðvikudaginn 11. maí kl. 18.05 var bifreið ekið austur Sundlaugaveg þegar bifhjóli var ekið vestur Sundlaugaveg frá gatnamótum Dalbrautar.  Þar ók bifhjólamaðurinn yfir á öfugan vegarhluta, yfir heila óbrotna miðlínu framúr bifreið sem ekið var á undan, og lenti bifhjólið utan í vinstra framhorni bifreiðarinnar. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 12. maí kl. 21.04 var tilkynnt um umferðarslys á Vesturlandsvegi í suður frá hringtorgi við Þingvallaveg, í átt að hringtorgi við Álafosskvosina, þar sem ökumaður bifhjóls var sagður liggja í götunni með bifhjólinu. Engin vitni voru að slysinu. Bifhjólmaðurinn, sem er sviptur ökuréttindum og grunaður um akstur undir áhrifum, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 14. maí kl. 16.07 var tilkynnt um umferðarslys þar sem hjólreiðamaður hafði fallið á rafmagnshlaupahjóli þegar hann hafði hjólað á gangstétt á móts við Vínbúðina og Elko í Skeifunni.  Hjólreiðamaðurinn sagði að það hefði liðið yfir hann í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.