Frá vettvangi á Vatnsendavegi.
31 Maí 2022 16:54

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. maí, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 23. maí. Kl. 8.29 var bifreið ekið suður Hlíðarberg þegar reiðhjólamaður hjólaði austur yfir merkta gangbraut við Setbergsskóla og varð árekstur með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, féll í götuna með hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 9.29 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut, á hægri akrein, inn á gatnamót Laugavegar og Suðurlandsbrautar þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað austur yfir gönguþverun á gatnamótunum frá Laugavegi og varð árekstur með þeim.  Hjólreiðamaðurinn hjólaði í vinstri hlið bifreiðarinnar og féll hann í götuna með hjólinu. Samkvæmt vitnum af atvikinu hafði kviknað grænt ljós skömmu áður fyrir umferð norður Kringlumýrarbraut á ljósastýringu gatnamótanna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 10.45 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, en norðan við Vífilsstaðaveg var bifreiðinni ekið á öryggisenda vegriðs sem staðsett er á umferðareyju. Ökumaður kvaðst hafa sofnað eða dottið út og rankað við sér þegar árekstur varð.  Hann var fluttur á slysadeild, en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja. Og kl. 18.18 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut inn í hringtorg við Lækjagötu þar sem fyrir voru bifreiðar, bæði á innri og ytri hring svo þrjár bifreiðar voru komnar inn í hringtorgið hlið við hlið þar til árekstur varð. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 26. maí kl. 12.40 var bifreið ekið norður Vatnsendaveg, ofan við Vífilsstaðavatn, yfir á öfugan vegarhlut þar sem hún lenti framan á bifreið sem ekið var á móti. Ökumaður, sem ók yfir á öfugan vegarhluta, kvaðst hafa verið að aka framúr reiðhjólamanni sem var á veginum skömmu áður en árekstur varð. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. maí. Kl. 12.50 var bifhjóli ekið vestur Breiðholtsbraut, yfir umferðarbrú á Reykjanesbraut, og suður aðrein inn á Reykjanesbraut þegar ökumaður kvaðst skyndilega hafa séð að umferð fyrir framan hann var stopp. Kvaðst hann þá hafa nauðhemlað, en við það hafi hann fallið í götuna þar sem hann rann áfram með hjólinu á bifreið sem var fyrir framan og þaðan út á vegöxlina þar sem hjólið endaði á vegriði. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.26 var bifreið ekið inn í bifreiðastæði á Garðatogi framan við hús nr. 6.  Ökumaður taldi sig hafa sett bifreiðina í P á sjálfskiptingu þegar hann steig út úr bifreiðinni.  Þegar ökumaður var kominn hálfur út þá byrjaði bifreiðin að renna aftur á bak svo ökumaður féll í götuna. Vitni sagði að hann teldi að ökumaður hefði að hluta lent undir bifreiðinni, en vitnið setti bifreiðina úr R í sjálfskiptingu í P.  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 28. maí kl. 10.21 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut að Bústaðavegi þegar bifhjóli var ekið aftan á bifreiðina. Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa ekið norður Reykjanesbraut á hægri akrein þegar bifreið sem var fyrir framan hann á miðju akrein hafi ekið á skóflu og hafi skóflan skotist yfir á hægri akrein. Sagðist hann hafa brugðist við með því að snögghemla til að aka ekki á skófluna, en þá hafi bifhjóli verið ekið aftan á bifreið hans. Bifhjólamaðurinn, sem var klæddur í viðeigandi öryggisfatnað með öryggsihjálm, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.