8 Júní 2022 11:53
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. maí – 4. maí, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 30. maí kl. 15.58 var tilkynnt um umferðarslys í Skipasundi þar sem rákust á reiðhjól og rafmagnshlaupahjól. Hjólreiðamaðurinn var á gangstétt, en fór út á götuna til að sneiða hjá fólki sem var á gangstéttinni. Þar var kyrrstæð bifreið, sem byrgði sýn, en á móti kom piltur á rafmagnshlaupahjóli og varð árekstur með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. júní. Kl. 7.54 var bifreið ekið norður Krísuvíkurveg og aftan á bifreið sem ekið var sömu leið fyrir framan. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði stöðvað við biðskyldu við hringtorgið, við Selhellu næst Reykjanesbraut, vegna umferðar í torginu. Sá var fluttur á slysadeild. Kl. 21.20 var bifhjóli ekið austur Hringbraut að gatnamótum Njarðargötu þegar ökumaður missti stjórn á hjólinu og féll með því í götuna. Ökumaður kvaðst hafa ekið á 40 km/klst. á eftir annari umferð þegar bifreið fyrir framan hann var snögghemlað. Ökumaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.14 var tilkynnt um umferðarslys á rafmagnshlaupahjóli á göngubrú við gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu. Vitni sagðist hafa séð ökumann rafmagnshlaupahjólsins koma á miklum hraða niður göngubrúna og að hann hafi misst stjórn á hjólinu og fallið með því í jörðina. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Grunur er um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis á rafmagnshlaupahjólinu.
Fimmtudaginn 2. júní kl. 9.40 var bifreið ekið suðaustur Uglugötu þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað af göngustíg inn á götuna og í hægri hlið bifreiðarinnar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 4. júní kl. 20.20 var bifreið ekið austur Kóngsbakka með fyrirhugaða akstursleið inn á Arnarbakka þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað Arnarbakka og missti hjólreiðamaðurinn stjórn á því og féll með hjólinu í götuna. Ekki varð árekstur með ökutækjunum, en talið er að hjólreiðamanninum hafi brugðið við að sjá bifreiðina við gatnamótin með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.