Frá vettvangi á Túngötu.
14 Júní 2022 14:22

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. júní, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 5. júní. Kl. 15.46 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut frá mislægum vegamótum við Krísuvíkurveg, en skammt norðan við Álverið í Staumsvík var bifreiðinni nauðhemlað vegna bifreiðar sem stoppaði skyndilega á undan. Ökumaður gat forðast að hann æki aftan á bifreiðina, en í framhaldi var bifreið sem ekið var á eftir ekið aftan á bifreið hans og svo þriðju bifreiðinni þar á eftir ekið aftan á hana. Tveir farþegar úr fremstu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.21 var bifreið ekið austur Bústaðaveg, inn á gatnamót Háaleitisbrautar, þegar annarri bifreið var ekið suður Háaleitisbraut inn á gatnamót Bústaðavegar og varð árekstur með bifreiðunum. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin, en samkvæmt vitnum þá logaði grænt ljós fyrir umferð austur Bústaðaveg en rautt ljós fyrir Háaleitisbraut á götuvitum. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 6. júní kl. 21.20 var bifreið ekið austur Túngötu við gatnamót Hólavallagötu þegar annarri bifreið var ekið norður Hólavallagötu inn á gatnamót Túngötu og varð árekstur með bifreiðunum.  Biðskylda er fyrir umferð um Hólavallagötu gagnvart umferð um Túngötu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 9. júní. Kl. 7.43 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut að gatnamótum Hamrabergs við Kaplakrika og þar aftan á bifreið sem var kyrrstæð við gatnamótin, en ökumaður hennar hafði stöðvað þar sem að rautt ljós logaði fyrir akstursstefnu hans á götuvitum umferðarljósastýringar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 7.58 var bifreið ekið austur Hringbraut og inn á beygjuaðrein suður Nauthólsveg þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað vestur eftir gangstíg meðfram Hringbraut inn á gatnamót Nauthólsvegar og varð árekstur með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 10. júní. Kl. 7.48 var bifreið ekið vestur Miklubraut, en á móts við Skeifuna var bifreiðinni ekið aftan á bifreið fyrir framan sem  hafði stöðvað vegna mikillar umferðar. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild, en hann er jafnframt grunaður um lyfjaakstur. Kl. 8.58 var bifreið ekið vestur Miklubraut við Stakkahlíð í mikilli umferð.  Var bifreiðinni ekið aftan á bifreið sem hafði stöðvað vegna annarrar umferðar fyrir framan og kastaðist sú bifreið síðan áfram á þá þriðju þar fyrir framan og sú bifreið kastaðist svo áfram á þá fjórðu. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.33 var tilkynnt um umferðarslys á gangstíg við Gylfaflöt og Rimaflöt þar sem að hjólreiðamaður hafði fallið af rafmagnshlaupahjóli. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 11. júní kl. 7.48 var reiðhjóli hjólað við Borgartún 18 þar sem hjólreiðamaðurinn féll með hjólinu á hjólastíginn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.