Frá vettvangi við Smáralind.
21 Júní 2022 12:28

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. júní, en alls var tilkynnt um 24 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 13. júní kl. 13.35 var strætisvagni ekið austur Sæbraut á hægri akrein, en á móts við Olís fór gangandi vegfarandi í norður þvert í veg fyrir vagninn svo umferðarslys varð. Að sögn vitna þá stóð gangandi vegfarandinn við akbrautina þar til að vagninn var kominn mjög nálægt honum og þá hafi hann farið mjög snögglega fyrir vagninn. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. júní. Kl. 9.10 var tilkynnt um umferðarslys þar sem ekið var á gangandi vegfaranda á merktri gangbraut á Fjarðargötu móts við Brikk í Hafnarfirði. Jafnframt fylgdi tilkynningunni að ökumaður hefði stöðvað og rætt við vegfarandann, en svo hafi allir farið sína leið og lögregla ekki kölluð á staðinn. Síðar kom í ljós að aðstandandi hafði farið með vegfarandann á slysadeild, en viðkomandi reyndist slasaður. Vitni náðu skráningarnúmeri bifreiðarinnar og gáfu það upp til lögreglu, sem fór og ræddi við ökumanninn. Og kl. 14.52 var rafmagnshlaupahjóli hjólað á akbraut austur Eiríksgötu þar sem hjólreiðamaðurinn féll í götuna með hjólinu austan við Mímisveg. Hann kvaðst hafa ætlað að hemla, en þá hafi hlaupahjólið skransað til hliðar með þeim afleiðingum að hann ók í holu og missti jafnvægið. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 15. júní. Kl. 15.03 var bifreið ekið afrennsli frá Reykjanesbraut inn á Fífuhvammsveg við Smáralind og þar hafnaði bifreiðin á steinvegg. Að sögn vitna hafi ökumaður látið sig detta út úr bifreiðinni eftir ákeyrsluna og lagst í grasið og einnig að grænt ljós hafi logað á götuvitum fyrir umferð vestur/austur Fífuhvamsveg og því verið rautt ljós fyrir akstur frá nefndri frárein frá Reykjanesbraut inn á Fífuhvamsveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.34 var strætisvagni ekið vestur Miklubraut á sérrein fyrir strætó, hópbifreiðar og taxa þegar fólksbifreið var ekið norður Kringluna í aðrein vestur Miklubraut og varð árekstur með þeim. Biðskylda er fyrir umferð frá Kringlunni gagnvart umferð um Miklubraut og sérreinina. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.06 var bifreið ekið austur Laugaveg, en við gatnamót Mjölnisholts var rafmaganshlaupahjóli hjólað frá Mjölnisholti inn á Laugaveg og varð árekstur með þeim. Hjólreiðamaðurinn kvaðst hafa hjólað norður Mjölnisholt inn á Laugaveg, en að sögn vitnis hjólaði hann á gangstéttinni austur Laugaveg, með farþega fyrir aftan sig, og tók skyndilega vinstri beygju við Mjölnisholt í norður inn á Laugaveg í veg fyrir bifreiðina. Hjólreiðamaðurinn og farþeginn, sem báðir voru án öryggishjálms, voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Smáralind.