7 Júlí 2022 22:17
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. júní – 2. júlí, en alls var tilkynnt um 43 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 26. júní kl. 0.37 var tilkynnt um umferðarslys á Reykjavíkurvegi við Ölhúsið þar sem tveimur rafmagnshlaupahjólum var ekið saman og slasaðist annar ökumannanna. Tjónvaldurinn ók rakleiðis af vettvangi, en hinn ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. júní. Kl. 15.08 datt barn af reiðhjóli við Hagasmára og slasaðist á hendi. Barnið var ekki með öryggishjálm. Og kl. 15.24 féll stúlka af hjóli sínu á Þvottalaugavegi á göngu-og hjólastíg milli Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og hún sögð hafa slasast á hendi og mjöðm. Talið er að stúlkan hafi hjólað ofan í holu þegar hún hjólaði frá grasvelli nærri Suðurlandsbraut og fallið fram fyrir sig. Stúlkan var flutt á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 28. júní. Kl. 8.21 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, á vinstri akrein, en við Vífilsstaðaveg ók ökumaður skyndilega út af veginum utan í vegrið og þaðan fór bifreiðin til hægri þvert yfir báðar akreinar utan vegar á grasi þar sem bifreiðin endaði á umferðarskilti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um fíkniefna- og lyfjaakstur. Kl. 19.53 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Súlunes og meiddist á höfði, höndum og fótum. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.42 ók bifhjólamaður bifhjóli til norðurs á Hafnarfjarðarvegi, á móts við Fífuna, og undir vinstra afturhorn á eftirvagni sem var tengdur við vörubifreið. Malbikunarframkvæmdir voru á Hafnarfjarðarvegi á akstursleið til suðurs og varð slysið við akstursgátt á milli akstursstefna. Bifhjólamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var talinn mikið slasaður og var fluttur á slysadeild. Hann er sviptur ökurétti og er grunaður um fíkniefnaakstur.
Miðvikudaginn 29. júní kl. 18.02 féll ökumaður af vespu nærri gatnamótum Bæjarbrautar og Hæðarbrautar. Í aðdraganda slyssins tók hann í bremsur hjólsins með þeim afleiðingum að það rann til hliðar og féll ökumaður af því á gangstíginn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.