18 Júlí 2022 22:17
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. júlí, en alls var tilkynnt um 22 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 10. júlí kl. 3.22 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á göngustíg sem liggur í undirgöng við Gagnveg. Hjólreiðmaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis.
Þriðjudaginn 12. júlí kl. 22.56 varð umferðarslys á göngu- og hjólastíg við Kaldárselsveg á milli hesthúsahverfa þar sem hjólreiðamaður hjólaði á umferðarskilti. Hjólreiðamaðurinn kvaðst hafa hjólað í gegnum hraðahindrun sem er á stígnum en rekið stýrið í seinna skiltið og fallið af hjólinu. Aðstandandi fór með hann á slysadeild.
Föstudaginn 14. júlí kl. 22.22 var bifreið ekið vestur Hringbraut aftan á tvær aðrar bifreiðar við gatnamót Njarðargötu. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin og var rautt ljós fyrir akstursstefnu vestur Hringbraut þegar árekstur varð. Tjónvaldurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild og síðan vistaður í fangageymslu.
Föstudaginn 15. júlí kl. 15.43 varð umferðarslys á gatnamótum Strandgötu og Víkingastrætis, en þar hafði bifreið og rafmagnshlaupahjóli verið ekið saman svo árekstur varð. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, hjólaði rafmagshlaupahjólinu á götunni og lenti á vinstri framhlið bifreiðarinnar. Hann skall í framrúðu bifreiðarinnar og féll í götuna. Samkvæmt lögregluskýrslu eru engin umferðarmerki sem stýra umferð á þeim akstursleiðum sem bifreiðin og hjólið komu úr og því um að ræða varúð til hægri fyrir þá ökumenn sem aka ökutækjum sem mega vera á vegi. Biðskyldumerki er uppi þegar ekið er inn á Strandgötu í vestur og yfirborðsmerking fyrir biðskyldu, en umferðarmerkið er hulið trjágróðri og því illa sýnlegt. Hjólreiðamaðurinn fór sjálfur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.