Frá vettvangi á Arnarnesbrú við Hafnarfjarðarveg.
27 Júlí 2022 16:14

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. júlí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 17. júlí. Kl. 12.44 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut að gatnamótum Álftanesvegar við Kaplakrika og þar aftan á bifreið sem var kyrrstæð fyrir framan, en sú bifreið kastaðist áfram á kyrrstæða bifreið þar fyrir framan. Bifreiðarnar sem ekið var á voru kyrrstæðar við ljósastýrð gatnamótin þar sem að rautt ljós logaði fyrir akstursstefnu þeirra. Ökumaður bifreiðarinnar sem ók aftan á hinar var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.54 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut, á beygjurein fyrir umferð suður Reykjanesbraut, og inn á gatnamótin við Fjarðarhraun þegar annarri bifreið var ekið norður Reykjanesbraut inn á gatnamótin með aksturstefnu áfram norður Fjarðarhraun og varð árekstur með bifreiðunum. Samkvæmt vitnum var rautt ljós fyrir umferð norður Reykjanesbraut inn á Fjarðarhraun þegar áreksturinn varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 19. júlí kl. 17.20 var bifreið ekið vestur Hraunhellu þegar annarri bifreið var ekið norður Suðurhellu, í vinstri beygju inn á gatnamót Hraunhellu og Selhellu, svo árekstur varð með bifreiðunum. Önnur bifreiðin hafnaði síðan á umferðarskilti eftir áreksturinn. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 20. júlí. Kl. 15 var bifreið ekið vestur Sæbraut, en á móts við Sólfarið var bifreiðinni ekið aftan á bifreið fyrir framan en ökumaður þeirrar bifreiðar var við það að nema staðar vegna mikillar umferðar á undan sem hafði stöðvað. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.02 var bifreið  ekið austur Arnarnesveg yfir Arnarnesbrú, við Hafnarfjarðarveg, frá Arnarnesi þar sem ökumaður stöðvaði við rautt ljós fyrir akstursstefnu hans á ljósastýringu gatnamótanna. Annarri bifreið var þá ekið í norður frá Hafnarfjarðarvegi inn á aðrein að Arnarnesbrú og þar á vegstólpa, en við það kastaðist bifreiðin áfram inn á gatnamótn og varð árekstur með bifreiðunum austan við brúnna. Að sögn vitna var bifreiðinni sem ekið var frá Hafnarfjarðarvegi ekið mjög hratt og ógætilega, en ökumaður hennar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og lyfja. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. júlí. Kl. 14.54 varð umferðarslys á Reykjanesbraut við Álverið í Staumsvík. Þar hafði ökumaður sem ók suð/vestur Reykjanesbraut ákveðið að snúa við með því að taka U-beygju á veginum þar sem hann missti af mislægum vegamótum inn í Vallarhverfið að sögn, en í sömu mund var bifreið sem ekið var á eftir fyrri bifreiðinni ekið á vinstri afturhlið bifreiðarinnar fyrir framan. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.35 varð umferðarslys á gatnamótum Kjarrmóa og Lyngmóa. Þar var léttu bifhjóli ekið aftan á bifreið og féll ökumaður bifhjólins í götuna með hjólinu.  Hann var ekki með öryggishjálm. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 22. júlí. Kl. 11.24 var bifreið ekið austur Vesturvör og þar á enda á steyptum steinvegg sem skilur að lóð og veg.  Ökumaður kvað ungmenni á vespu hafa ekið þvert yfir götuna í veg fyrir bifreiðina svo hann hafi brugðist við með því að afstýra árekstri og sveigja frá en við það hafi bifreið hans hafnað á steinvegg. Ökumaður vespunnar mun hafa yfirgefið vettvang án þess að stöðva. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.44 var rafmagnshlaupahjóli ekið austur Tunguveg á gangstétt og fram af gangstéttarbrún inn á gatnamót Garðsenda. Ökumaður kvaðst hafa ekið á stein á götunni um leið og hann tók í hemla hjólsins og hann og farþegi sem var á hjólinu hafi fallið fram fyrir hjólið í götuna. Hjólreiðamaðurinn kvaðst ekki hafa áttað sig á því fyrr en of seint að hann hafa komið á alltof mikilli ferð inn á gatnamótin og því gripið i handbremsu hjólsins, en við það hefðu hann og farþeginn, en hvorugur þeirra var með öryggishjálm, steypst fram af hjólinu eins og fyrr segir. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 23. júlí kl. 0.02 varð umferðarslys þar sem maður féll af rafmagnshlaupahjóli utan í kyrrstæða bifreið og þaðan í götuna á Rauðarárstíg við Stórholt. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild, en hann var jafnframt grunaður um að hafa verið ölvaður á hjólinu.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.