Frá vettvangi á Krísuvíkurvegi.
9 Ágúst 2022 15:06

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. júlí – 6. ágúst, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 31. júlí. Kl. 2.06 var rafmagnshlaupahjóli hjólað austur hjólastíg við Sæbraut, en á móts við Guðrúnartún féll hjólreiðamaðurinn með hjólinu á stíginn.  Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 12.01 varð umferðarslys á malarstíg á Grafarholtsvelli þar sem hjólreiðamaður féll af  reiðhjóli á malarstíginn. Reiðhjólamaðurinn var að hjóla niður brekku til suðausturs og hjólaði utan í moldarbarð sem varð til þess að hann féll. Hjólreiðmaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.16 varð umferðarslys á Vesturlandsvegi í Kollafirði við gömlu malarnámurnar. Þar var bifreið með eftirvagn (bátakerra) ekið austur veginn þegar hjólbarði fór undan vagninum og hafnaði á bifreið, sem var ekið á móti. Síðarnefnda bifreiðin hemlaði, en við það var þremur bifreiðum sem á eftir henni komu ekið aftan á hver aðra. Farþegi í bílnum, sem hjólbarðinn hafnaði á, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 1. ágúst kl. 22.24 varð bílvelta á hringtorgi á Krísuvíkurvegi næst Reykjanesbraut. Að sögn vitna var bifreiðinni ekið mjög hratt og ógætilega suður Reykjanesbraut frá Lækjargötu og fram úr öðrum bifreiðum þar til henni var beygt út af Reykjanesbraut inn á Krísuvíkurveg og yfir fyrsta hringtorgið. Þar lenti bifreiðin á stóru grjóti og valt. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur.

Þriðjudaginn 2. ágúst kl. 11.30 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Sæbraut við Kleppsmýrarveg. Umferðarljós stýra umferð um gatnamótin, en bifreiðinni var ekið vestur Sæbraut að gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs í aðdragandanum. Vegfarandinn, sem þveraði Sæbraut frá Kleppsmýrarvegi, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 3. ágúst kl. 6.12 féll hjólreiðamaður í götuna á rafmagnshlaupahjóli á Háteigsvegi við Háteigsskóla. Hjólreiðamaðurinn, sem mun hafa fallið þegar hann fór yfir hraðahindrun, var fluttur á slysadeild. Hann var ekki með öryggishjálm og er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna á hjólinu.

Fimmtudaginn 4. ágúst kl. 22.36 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli við hringtorg á Krókhálsi við Golfskálaveg. Hjóreiðamaðurinn kvaðst hafa hjólað norður Krókháls og á vegkant við gangbraut á Krókhálstorgi og fallið við það með hjólinu í götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 6. ágúst kl. 22.25 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í götuna á Eiríksgötu við Mímisveg. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Grunur er um að hann hafi verið undir áhrifum vímuefna.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.