25 Ágúst 2022 16:16
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. ágúst, en alls var tilkynnt um 51 umferðaróhapp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 14. ágúst. Kl. 1.07 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Fossvogsvegi við Markarveg þegar hjólið rakst í götukant. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 10.39 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Gullinbrúar, Höfðabakka og Stórhöfða. Annarri bifreiðinni var ekið norður Höfðabakka og beygt áleiðis vestur Stórhöfða þegar hin bifreiðin kom suður Gullinbrú svo árekstur varð. Grænt ljós logaði fyrir umferð norður/suður en ekki er varin vinstri beygja í ljósastýringunni. Ökumaður og tveir farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.46 var tilkynnt um hjólreiðamann sem féll af rafmagnshlaupahjóli á Langholtsvegi, en slysið mun hafa orðið um hálftíma áður. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 15. ágúst kl. 10.01 varð tveggja bíla árekstur á Bíldshöfða, skammt vestan við N1. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Bíldshöfða og beygt í vinstri beygju áleiðis í aðrein vestur Vesturlandsveg í Ártúnsbrekku þegar hin bifreiðin kom austur Bíldshöfða svo árekstur varð. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 16. ágúst. Kl. 16.46 var vespu ekið á hjólreiðamann á reiðhjóli á göngustíg við göngubrú yfir Breiðholtsbraut við hesthúsahverfið í Víðidal. Ökumaður vespunnar nam ekki staðar heldur ók rakleiðis af vettvangi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.56 var tilkynnt um hjólreiðamann sem féll af rafmagnshlaupahjóli á Nauthólsvegi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild, en lögreglu var tilkynnt um slysið eftir að maðurinn var kominn þangað.
Miðvikudaginn 17. ágúst kl. 10 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kalkofnsvegar, Lækjargötu og Geirsgötu. Leigubifreið var ekið suður Kalkofnsveg á merktri STÆTÓ rein inn á gatnamótin þegar annarri bifreið var ekið norður Lækjargötu í vinstri beygju inn á gatnamótin svo árekstur varð. Umferðarljós stýra umferð á þessum stað, en ekki er vitað hvernig ljósastaða þeirra var þegar áreksturinn varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 19. ágúst kl. 16.14 skullu saman reiðhjól og bifreið á bifreiðastæði Hreyfils í Fellsmúla. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. ágúst. Kl. 16.12 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Tryggvagötu við Borgarbókasafnið. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.19 var rafmagnshlaupahjóli hjólað á gangandi vegfaranda á Sæbraut, innan lokunarsvæðis Menningarnætur. Hjólreiðamaðurinn yfirgaf strax vettvang án þess að huga að þeim sem ekið var á, en hann skildi rafmagnshlaupahjólið var eftir. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.