Frá vettvangi á Vífilsstaðavegi.
6 Október 2022 15:00

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. september – 1. október, en alls var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 25. september. Kl. 1.10 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Hofsvallagötu og Hávallagötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 3.33 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Pósthússtræti í Reykjavík, við Hótel Borg. Ökumaður bifreiðarinnar nam ekki staðar heldur ók rakleiðis af vettvangi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.56 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg neðan við Grafarvogskirkju í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16 var tilkynnt um umferðarslys í Háholti við KFC í Mosfellsbæ, en þar var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á merktri gangbraut. Ökumaður bifreiðarinnar hringdi í aðstandendur vegfarandans, sem komu á vettvang og fóru með hann á slysadeild, en þaðan var lögreglu tilkynnt um slysið.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 26. september. Kl. 8.11 var bifreið ekið austur Vífilsstaðaveg og aftan á aðra við Skeiðarás í Garðabæ, sem var kyrrstæð vegna umferðar fyrir framan. Ökumaður bifreiðarinnar, sem ekið var á, var fluttur á slysadeild. Kl. 17.24 var bifreið ekið á hjólreiðamann við hringtorg á Digranesvegi við Dalveg í Kópavogi. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið á vinstri akrein suður Digranesveg, áleiðis inn á hringtorg (gatnamót), við Dalveg þegar hjólreiðamaður á reiðhjóli hjólaði yfir veginn á merktri gangbraut með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.37 var bifreið ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Laugavegar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið austur Laugaveg, og beygt beygjuvasa suður Kringlumýrarbraut, þegar hjólreiðamaðurinn hjólaði þvert yfir beygjuvasan með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 30. september kl. 15.14 var rafmagnshlaupahjóli hjólað í hlið bifreiðar á gatnamótum Fljótasels og Flúðasels. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Fljótasel, en hjólreiðamaðurinn hjólaði í norður á gangstétt við Flúðasel. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Rafmagnshlaupahjólið var haldlagt í þágu rannsóknar málsins.

Laugardaginn 1. október kl. 17.48 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Reykjavík og á gangandi vegfaranda, á móts við Blesugróf. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.