20 Október 2022 14:49
Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. október, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 9. október. Kl. 1.08 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Rauðarárstígs og Flókagötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 11.19 var bifreið ekið vestur Bæjarháls í Reykjavík, áleiðis í vinstri beygju suður Höfðabakka, og á ljósastaur. Í aðdragandanum sagðist ökumaður hafa verið að rétta farþega í aftursæti síma og því ekki með fulla athygli við aksturinn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.06 var bifreið ekið á ljósastaur á bifreiðastæði við Kjarnann í Mosfellsbæ. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 10. október kl. 15.17 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á mótum Skúlagötu og Ingólfsstrætis í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 11. október. Kl. 19.08 var bifreið ekið suður Sæbraut í Reykjavík, áleiðis eftir frárein fyrir umferð austur Miklubraut/Vesturlandsveg. Þar missti ökumaðurinn stjórn á henni, en bifreiðin fór út af veginum og yfir aðrein fyrir umferð frá Miklubraut, austur Reykjanesbraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.41 hafnaði bifreið utan vegar á Þingvallavegi við Kjósaskarðsveg og valt. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 12. október. Kl. 17.48 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Mosaveg í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.06 varð árekstur vespu og rafmagnshlaupahjóls á göngustíg meðfram Vífilsstaðavegi og Litlatúni. Vespan og reiðhjólið komu úr gagnstæðri átt, en hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, fór sjálfur á slysadeild. Við vettvanginn er trjágróður sem byrgir sýn.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 13. október. Kl. 7.54 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gangstétt á mótum Njarðargötu og Sturlugötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Hálka var á vettvangi. Kl. 9.47 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Suðurfells í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Suðurfell, en hinni vestur Breiðholtsbraut svo árekstur varð með þeim. Grænt ljós var fyrir umferð um Breiðholtsbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.18 var strætisvagni ekið á annan strætisvagn, sem var kyrrstæður á Hlemmtorgi í Reykjavík. Annar vagnstjóranna var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 14. október. Kl. 8.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Stekkjarbakka og Arnarbakka í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Stekkjarbakka, en hinni vestur Arnarbakka svo árekstur varð með þeim. Biðskylda er á Arnarbakka, gagnvart umferð um Stekkjarbakka. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 14.35 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Hofsvallagötu í Reykjavík, við Neshaga. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.14 varð tveggja bíla árekstur á bifreiðastæði við Kóngsbakka í Reykjavík. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 15. október kl. 17.01 var bifreið ekið vestur Hólmsheiðarveg í Reykjavík, áleiðis að Reynisvatnsvegi. Þar missti ökumaðurinn stjórn á henni, en bifreiðin fór út af veginum, hafnaði á stóru grjóti og fór síðan í heila veltu og endaði aftur á hjólunum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.