Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
26 Október 2022 13:29

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. október, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 16. október. Kl. 10.31 var sendibifreið ekið vestur Vesturlandsveg, við Kerhólakamb á Kjalarnesi. Þar feykti vindhviða henni á loft og á hliðina svo sendibifreiðin lenti utan í og ofan á fólksbifreið, sem var ekið austur Vesturlandsveg. Á vettvangi var mikið hvassviðri og gekk á með miklum vindhviðum, sem náðu allt að 50 m/s. Vesturlandsvegi var því haldið lokuðum fram eftir degi á meðan veðrið gekk niður, en ekki var hægt að fjarlægja ökutækin fyrr en að því loknu. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 12.58 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg við Þverbrekku í Kópavogi og aftan á aðra, sem hafði stöðvað vegna strætisvagns sem gaf stefnumerki frá biðstöð, en báðar bifreiðarnar höfnuðu sömuleiðis á strætisvagninum. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 17. október. Kl. 7.56 rákust saman reiðhjól og rafmagnshlaupahjól á göngustíg við Tjaldhól í Reykjavík, nærri Kringlumýrarbraut í Fossvogi. Annar reiðhjólamannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.14 var bifreið ekið norður Vatnsendahvarf í Kópavogi inn á gatnamót Breiðholtsbrautar í Reykjavík með fyrirhugaða vinstri beygju vestur Breiðholtsbraut. Á sama tíma var annarri bifreið ekið austur Breiðholtsbraut, inn á gatnamótin, svo árekstur varð með þeim. Ökumaður og tveir farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Umferðarljós eru á gatnamótunum, en ágreiningur er um ljósastöðu þegar slysið varð.

Þriðjudaginn 18. október kl. 16 rákust saman reiðhjól og rafmagnshlaupahjól í brekku norðvestur af Áslandi í Mosfellsbæ, nærri „hljóðmúrnum“ við Vesturlandsveg. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild af aðstandanda. Slysið var tilkynnt til lögreglu tveimur dögum eftir að það átti sér stað.

Miðvikudaginn 19. október kl. 17.41 var bifreið ekið á reiðhjólamann á reiðhjóli á gatnamótum Vesturbrúnar og Brúnavegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var reiðhjólinu hjólað í vestur, á gangstétt meðfram Brúnavegi og inn á gatnamót Vesturbrúnar með fyrirhugaða leið áfram vestur meðfram Brúnavegi. Bifreiðinni var hins vegar ekið austur Brúnaveg, áleiðis í hægri beygju inn Vesturbrún svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 21. október kl. 14.25 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á Lindarvegi við Fífuhvammsveg í Kópavog. Í aðdragandanum var bifreið ekið út úr hringtorgi á Fífuhvammsvegi, áleiðis vestur Lindarveg, og stöðvaði ökumaður hennar á vinstri akrein við merkta gangbraut til þess að hleypa hjólreiðamanni yfir götuna. Í sömu mund var annarri bifreið ekið sömu leið á hægri akrein inn á gangbrautina og á rafmagnshlaupahjólið, en ökumaður þess var að þvera veginn. Að sögn ökumanns bifreiðarinnar blindaðist hann af sól og sá ekki til ferða hjólreiðamannsins fyrr en of seint. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 22. október kl. 4.48 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg í Reykjavík, en á móts við Sogaveg virðist ökumaðurinn hafa misst stjórnina svo hún hafnaði utan vegar og valt. Talið er að slysið megi rekja til veikinda ökumannsins, en hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.