Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.
8 Nóvember 2022 14:58

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. október – 5. nóvember, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 31. október kl. 16.15 var bifreið ekið á kyrrstæða bifreið á Kringlumýrarbraut í Reykjavík, aðrein í akstursstefnu í norður inn á Bústaðavegsbrú/Bústaðaveg, og kastaðist sú áfram á þriðju bifreiðina. Í aðdragandanum kvaðst tjónvaldurinn hafa fipast þegar farsími hans datt á gólf bifreiðarinnar og athyglin þá farið af veginum með fyrrgreindum afleiðingum. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 1. nóvember kl. 9.51 var bifreið með kerru í eftirdragi ekið austur Suðurlandsveg, en á móts við Bláfjallaafleggjara missti ökumaður stjórn á henni og fór bifreiðin út af veginum, á víravegrið og valt yfir það. Í aðdragandanum kvað ökumaðurinn að kerran hafi farið að sveiflast á veginum, en hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 2. nóvember kl. 14.14 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli  á göngustíg norðan Suðurlandsbrautar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 3. nóvember kl. 15.52 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á göngustíg norðan við verslunina Bauhaus í Reykjavík. Í aðdragandanum kvað hjólreiðamaðurinn sólina hafa blindað honum sýn í beygju á göngustígnum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 4. nóvember kl. 13.15 varð tveggja bíla árekstur í Urriðaholtsstræti í Garðabæ. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 5. nóvember kl. 20.07 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar og Katrínartúns í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Sæbraut, inn á gatnamót Katrínartúns áleiðis í vinstri beygju suður Katrínartún, en hinni austur Sæbraut og inn á gatnamótin svo árekstur varð með ökutækjunum. Ökumönnunum ber ekki saman um stöðu umferðarljósa. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.