Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Reykjavík.
17 Nóvember 2022 16:23

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. nóvember, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 7. nóvember. Kl. 10.03 rákust saman bifreið og rafmagnshlaupahjól á gatnamótum Engjasels og Brekkusels í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið frá Brekkuseli, inn á gatnamót Engjasels, þegar rafmaganshlaupahjóli var hjólað norður gangstétt inn á Brekkusel svo árekstur varð með þeim. Við vettvanginn var stór, kyrrstæði sendibifreið og er hún talin hafa byrgt ökumönnunum sýn. Hjólreiðmaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.04 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var vegfarandinn að reiða hjól sitt af gangstétt og yfir götuna. Ökumanninum og vegfarandanum bar ekki saman um stöðu umferðarljósa á gatnamótunum þegar slysið varð. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 8. nóvember kl. 15.32 rákust saman bifreið og rafmagnshlaupahjól í Vegmúla í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið frá bifreiðastæði, en hjólreiðamaðurinn hjólaði norður götuna svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 10. nóvember. Kl. 14.37 rákust saman bifreið og rafmagnshlaupahjól á gatnamótum Ægisgötu og Vesturgötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Ægisgötu og beygt austur Vesturgötu þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað á götunni vestur Vesturgötu svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 20.30 rákust saman bifreið og reiðhjól á gatnamótum (hringtorg) Hjallabrautar og Skjólvangs í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið austur Skjólvang inn á göngu- og hjólaleið (hraðahindrun) við hringtorgið þegar hjólreiðamaður hjólaði norður og inn á hraðahindrunina svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.35 varð tveggja bíla árekstur á Reykjanesbraut, sunnan Bústaðavegar í Reykjavík, en báðum var ekið í norðurátt. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið á miðrein, en skömmu áður en komið var að gatnamótunum við Bústaðaveg skipti ökumaður hennar um akrein og fór yfir á akrein lengst til hægri í veg fyrir aðra bifreið svo árekstur varð með þeim (aftanákeyrsla). Við það kastaðist önnur bifreiðin á umferðareyju og stöðvaðist síðan á vegriði sem aðskilur aksturstefnur, en hin valt nokkrar veltur og stöðvaðist  á beygjurein. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 11. nóvember kl. 14.12 steig ökumaður úr bifreið á athafnasvæði Sorpu í Kópavogi án þess að ganga tryggilega frá henni. Bifreiðin rann aftur á bak niður ramp og fór utan í ökumanninn. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 12. nóvember. Kl. 13.40 var bifreið ekið aftan á aðra á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar í Reykjavík. Lögreglan var ekki kölluð á vettvangi, en báðir ökumennirnir leituðu sjálfir á Læknavaktina. Kl. 18.33 rákust saman bifreið og rafmagnshlaupahjól á Dalvegi við Hlíðarhjalla í Kópavogi. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Dalveg, beygt í hægri beygju norður Hlíðarhjalla, þegar hjólreiðamaður hjólaði eftir gangstétt við Dalveg yfir Hlíðarhjalla svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.40 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Elliðavatnsvegi í Garðabæ, sunnan Vífilsstaðavatns, með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.