Frá vettvangi á Reykjanesbraut, á móts við Stekkjarbakka.
24 Nóvember 2022 15:37

Í síðustu viku lést einn vegfarandi og níu slösuðust í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. nóvember, en alls var tilkynnt um 45 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 13. nóvember kl. 4.52 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Reykjavík, undir umferðarbrú Miklubrautar , og inn á Sæbraut þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni. Bifreiðin fór þá utan vegar, rakst þar á ljósastaur og umferðarmerki og hafnaði loks á kyrrstæðri bifreið við Knarrarvog. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 14. nóvember. Kl. 18.51 var tveimur bifreiðum ekið norður Reykjanesbraut í Reykjavík, á móts við Stekkjarbakka, annarri á vinstri akrein en hinni á miðju akrein, þegar árekstur varð með þeim. Ökumönnunum ber ekki saman um aðdraganda slyssins, en báðir voru fluttir á slysadeild. Í framhaldinu var annar ökumannanna, sem er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur, færður á lögreglustöð. Og kl. 16.57 rákust saman bifreið og rafmagnshlaupahjól á gatnamótum Völundarhúss og Baughúss. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Völundarhús og beygt inn Baughús, en rafmagnshlaupahjólinu hjólað norður göngustíg við Völundarhús. Hjólreiðamaðurinn hugðist þvera Baughús á hraðahindrun/gönguleið þegar árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 15. nóvember kl. 18.26 var bifreið ekið vestur Nýbýlaveg í Kópavogi, inn á gatnamót við Grænatún, og á gangandi vegfaranda, sem var á leið norður yfir Nýbýlaveg. Vitni sagði vegfarandann hafa farið yfir götuna gegn rauðu gangbrautarljósi, en bifreiðinni verið ekið gegn grænu umferðarljósi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 16. nóvember. Kl. 9.01 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, og beygt áleiðis í beygjuvasa fyrir umferð vestur Miklubraut, þegar reiðhjóli var hjólað vestur yfir beygjuvasann svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.20 var bifreið ekið norður Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, inn á gatnamót við Hjallabraut, þegar rafmagnshlaupahjóli var hjólað austur yfir gatnamótin svo árekstur varð með þeim. Vitni sagði hjólreiðamanninn hafa farið yfir götuna gegn rauðu gangbrautarljósi, en bifreiðinni verið ekið gegn grænu umferðarljósi. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 18. nóvember. Kl. 9.39 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, á hægri akrein, og á vegfaranda sem hugðist ganga yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar og Háleitisbrautar til vesturs. Vegfarandinn var fluttur mjög alvarlega slasaður á slysadeild. Og kl. 15.15 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við Sævarhöfða í Reykjavík, á móts við Naustabryggju. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 19. nóvember kl. 20.04 lentu saman rafmagnshlaupahjól og hópbifreið á mótum Barónsstígs og Grettisgötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn lést í slysinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.