Frá vettvangi á Miklubraut, á móts við Rauðagerði.
29 Nóvember 2022 10:31

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. nóvember, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 21. nóvember. Kl. 8.47 var tilkynnt um slasaðan hjólreiðamann á Langholtsvegi í Reykjavík. Sá hafið fallið af reiðhjóli, en ekki er ljóst hvort slysið átti sér stað á Langholtsvegi eða annars staðar og gat viðkomandi ekki upplýst um það frekar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 9.33 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg við N1 á Hringbraut í Reykjavík. Hálka var á vettvangi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.44 rákust saman hjólreiðamaður og gangandi vegfarandi á göngustíg vestan við Árbæjarlaug í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.32 var bifreið ekið suður Grensásveg í Reykjavík, inn á frárein að Miklubraut til vesturs, og á rafhlaupahjól. Um er að ræða göngu/hjólastíg sem þverar fráreinina frá Grensásvegi inn á Miklubraut, en stígurinn er ekki merktur sem gangbraut og umferð um hann er ekki stýrt með umferðarljósum. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 22. nóvember. Kl. 9.09 var bifreið ekið á rafhlaupahjól á Sundlaugavegi í Reykjavík, við Gullteig, en hjólreiðamaðurinn var á leið yfir ætlaða göngu/hjólreiðaleið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 17.12 var rafmagnshlaupahjóli hjólað á handrið við göngustíg í Grafarvogi í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Einnig er grunur um að átt hafi verið við búnað hjólsins á þann hátt að það komist hraðar en 25 km/klst. Og kl. 22.53 hafnaði bifreið utan vegar á Heiðmerkurvegi í Garðabæ. Í aðdragandanum missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni í skarpri vinstri beygju svo hún fór út fyrir veg og hafnaði þar ofan á stóru grjóti. Ökumaður og farþegi ætluðu sjálfir að leita sér aðhlynningar á slysadeild. Myrkur var á vettvangi, engin götulýsing og yfirborð vegar var malborið og laust.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 25. nóvember. Kl. 1.39 féll hjólreiðamaður af rafhlaupahjóli á gangstétt á Ránargötu í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 12.14 varð árekstur bifreiðar og rafhlaupahjóls á mótum Suðurlandsbrautar og Álfheima í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið á aðrein frá Álfheimum inn á Suðurlandsbraut, en þar er gönguþverun fyrir gangandi og hjólandi umferð. Biðskylda er fyrir ökutæki á aðreininni sem aka inn á Suðurlandsbraut og jafnframt er merkt gangbraut fyrir þá sem ætla sér inn á gönguþverunina. Hjólreiðmaðurinn hjólaði þennan göngustíg og tók vinstri beygju inn á fyrrnefnda gönguþverun þegar árekstur varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.22 varð fjögurra bíla aftanákeyrsla á Miklubraut í Reykjavík, á móts við Rauðagerði. Þeim var ekið til austurs, en fremsta bifreiðin hægði á sér vegna umferðar fram undan og ökumenn sem á eftir komu náðu ekki að bregðast við í tæka tíð með fyrrgreindum afleiðingum. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 26. nóvember. Kl. 20.01 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á Vesturlandsvegi í Reykjavík, vestan við Kollafjörð. Hálka var á vettvangi. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.43 var bifreið ekið á vegrið á Suðurlandsvegi, rétt vestan við Litlu kaffistofuna. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.