16 Desember 2022 15:48
Í síðustu viku lést einn vegfarandi og átta slösuðust í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. desember, en alls var tilkynnt um 42 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þriðjudaginn 6. desember kl. 0.30 hafnaði bifreið utan vegar á Þingvallavegi í Mosfellsbæ, nærri hringtorgi við Vesturlandsveg. Hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 7. desember kl. 19.39 var bifreið ekið á aðra kyrrstæða á gatnamótum Öldusels og Ystasels í Reykjavík. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 9. desember kl. 12.41 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg í Mosfellsbæ, áleiðis að hringtorgi við Álafosskvos, og á aðra sem var ekið sömu leið. Meintur tjónvaldur var að aka framúr hinni bifreiðinni þegar slysið varð. Þrír voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. desember. Kl. 0.33 var farið á vettvang á Höfðabakka í Reykjavík, en þar var ekið á gangandi vegfaranda. Bifreið á leið norður Höfðabakka, nálægt Árbæjarsafni, hafnaði á vegfarandanum, sem var karlmaður á fimmtugsaldri. Hann var fluttur á Landspítalann, en lést þar síðar um nóttina. Lokað var fyrir umferð um Höfðabakka, á milli Bæjarháls og Stekkjarbakka, á meðan unnið var á vettvangi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Kl. 19 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg í Reykjavík, á móts við Öskju, og aftan á aðra bifreið, sem var ekið sömu akstursleið á sömu akrein. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.25 varð árekstur strætisvagns og fólksbíls á Vatnsmýrarvegi í Reykjavík, við BSÍ. Farþegi úr strætisvagninum var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.