Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
2 Mars 2023 12:08

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. febrúar, en alls var tilkynnt um 23 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 20. febrúar kl. 9.33 var bifreið ekið vestur Mímisbrunn í Reykjavík og inni í Gefjunartorg, við Gefjunarbrunn, en þar missti ökumaður stjórn á henni og hafnaði bifreiðin utan vegar og á ljósastaur. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 21. febrúar kl. 19.17 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Miklubraut, en hinn suður Kringlumýrarbraut. Grænt ljós var fyrir umferð austur Miklubraut að sögn vitnis. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 22. febrúar kl. 16.52 var bifreið ekið vestur Fossháls í Reykjavík, við Ölgerðina, og á gangandi vegfaranda. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 23. febrúar. Kl. 7.14 fannst mannlaus bifreið í sjó neðan við skólphreinsistöð við Seljanes i Skerjafirði í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem var talinn glíma við veikindi, fannst nokkru frá vettvangi og var fluttur á slysadeild. Og kl. 7.26 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Lækjargötu, Geirsgötu og Kalkofnsvegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Kalkofnsveg, en hinni norður Lækjargötu og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri inn á Geirsgötu þegar árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 24. febrúar kl. 23.32 var bifreið ekið vestur Suðurlandsveg, í Lögbergsbrekku, og á öryggisenda vegriðs. Framkvæmdir eru á þessum kafla vegarins, en á vettvangi var mikil rigning, slagveður og myrkur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.