Frá vettvangi á gatnamótum Nýbýlavegar og Dalvegar.
22 Febrúar 2023 15:55

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. febrúar, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 12. febrúar kl. 20.15 var bifreið ekið austur Miklubraut í Reykjavík, að gatnamótum við Grensásveg, og aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 13. febrúar kl. 8.29 rákust saman tvær bifreiðar sem var ekið úr gagnstæðri átt á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Brunnhóla, þegar annarri þeirra var ekið yfir á öfugan vegarhelming. Mikið brak úr þeim kastaðist svo á þriðju bifreiðina. Á vettvangi var mikill vindur og vindhviður. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Rannsóknarnefnd samgönguslysa kom enn fremur á vettvang.

Þriðjudaginn 14. febrúar kl. 15.03 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Gjáhellu og Breiðhellu í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Gjáhellu, en hinni austur Breiðhellu. Biðskylda er á Breiðhellu gagnvart umferð um Gjáhellu. Tveir voru fluttir á slysadeild. Annar ökumannanna er grunaður um fíkniefnaakstur og var hann handtekinn í þágu rannsóknarinnar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 15. febrúar. Kl. 6.30 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Hringbraut, en hinni vestur Hringbraut og ætlaði ökumaður hennar að beygja suður Njarðargötu þegar árekstur varð með þeim. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi á beygjurein. Farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.32 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Dalvegar og Nýbýlavegar í Kópavogi. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Nýbýlaveg, en hinni norður Dalveg svo árekstur varð með þeim. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 16. febrúar kl. 8.22 rann bifreið afturábak úr bifreiðastæði á Reynimel í Reykjavík og á vegfaranda sem klemmdist á milli hennar og kyrrstæðrar bifreiðar þar fyrir aftan. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 17. febrúar kl. 15.35 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Kópavogi og inn á afrein að bensínstöð Orkunnar á Dalvegi, en þar fór hún upp á vegkant og hafnaði á ljósastaur. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.