3 Apríl 2023 16:02
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. mars – 1. apríl, en alls var tilkynnt um 28 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 26. mars kl. 18.53 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Norðurhellu í Hafnarfirði. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 29. mars kl. 19.19 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg í Reykjavík og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á móts við Leiruveg, en ökumaðurinn hennar hugðist taka vinstri beygju og aka Leiruveg til vesturs. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 31. mars. Kl. 16.38 hafnaði rafhlaupahjól, sem var hjólað á gangbraut á Digranesvegi í Kópavogi, á gatnamótum við Bröttubrekku, í hlið bifreiðar, sem var ekið austur Digranesveg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.49 féll hjólreiðamaður af rafhlaupahjóli í Tjarnargötu í Reykjavík þegar hann hjólaði á milli stólpa og umferðarskiltis. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um ölvunarakstur.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.