Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar.
26 Apríl 2023 15:41

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. apríl, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 19. apríl. Kl. 12.52 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Miklubraut, en hinni austur Miklubraut og tók ökumaður hennar vinstri beygju á gatnamótunum og hugðist síðan aka Grensásveg til norðurs þegar árekstur varð með þeim. Síðarnefndi ökumaðurinn er talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild og einn farþegi fór þangað líka, en á eigin vegum. Og kl. 21.15 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli við Eddufell í Breiðholti. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. apríl. Kl. 12.38 var ekið á gangandi vegfaranda á Víkurvegi í Reykjavík. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.05 var bifreið ekið Vesturlandsveg á Kjalarnesi, á móts við Vallá, og á aðra bifreið sem var fyrir framan, en í aðdragandanum hugðist ökumaður hennar taka vinstri beygju og aka inn á afleggjara sem þar er. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 21. apríl. Kl. 11.03 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við Lyngás í Garðabæ og hafnaði á grjóthleðslu við veginn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.49 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Álftanesvegar og Reykjanesbrautar í Garðabæ, á móts við Góu. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið frá Álftanesvegi og inn á gatnamót svo árekstur varð þegar hinn var ekið um Reykjanesbraut. Grunur er um að síðarnefndi ökumaðurinn hafi ekið gegn rauðu ljósi. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.49 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Fellsmúla og Síðumúla í Reykjavik. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 22. apríl. Kl. 13.11 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Kringlumýrarbraut í Reykjavík, sunnan við Bústaðavegsbrú. Bifreiðin, sem var með kerru í eftirdragi, hafnaði á vegkanti og kastaðist þaðan á vegrið, sem er á miðeyju og ver akstursstefnur. Kerran var yfirhlaðin og ökumaðurinn var ekki með réttindi til að draga þennan eftirvagn. Ökumaður fór sjálfur á slysadeild. Og kl. 16.34 var bifhjóli ekið norður Sæbraut í Reykjavík og aftan á kyrrstæða bifreið sem var í sömu akstursleið. Í aðdragandanum var annarri bifreið ekið fyrir framan bifhjólið, en ökumaður hennar náði að beygja frá kyrrstæða bílnum en ökumaður bifhjólsins ekki. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.