Frá vettvangi á Lynghálsi.
24 Maí 2023 15:54

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. maí, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 14. maí kl. 19.56 var bifreið ekið á reiðhjól á gatnamótum Breiðholtsbrautar í Reykjavík og Vatnsendahvarfs í Kópavogi. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Breiðholtsbraut og beygði ökumaður hennar Vatnsendahvarf til suðurs. Hjólreiðamaðurinn hjólaði Vatnsendahvarf til norðurs og hugðist fara yfir Breiðholtsbraut þegar árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Að sögn vitna hjólaði hann gegn rauðu ljósi.

Mánudaginn 15. maí kl. 14.38 varð árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á gatnamótum Skothúsvegar og Tjarnargötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Skothúsveg, en rafmagnshlaupahjólinu hjólað norður Tjarnargötu. Þarna er biðskylda gagnvart umferð um Skothúsveg. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 16. maí kl. 15.27 varð tveggja bíla árekstur á Vesturlandsvegi í Kollafirði, við Mógilsá. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt, en báðar bifreiðarnar höfnuðu utan vegar þar sem önnur þeirra valt og stöðvaðist á klettavegg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 17. maí. Kl. 18.44 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Lynghálsi í Reykjavík og ók á tvær, kyrrstæðar bifreiðar á bifreiðastæði við götuna. Áreksturinn er rakinn til veikinda ökumannsins, en hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.54 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á göngu- og hjólastíg við Þingvallaveg í Mosfellsdal. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 18. maí. Kl. 4.26 var bifreið ekið á vegrið á Reykjanesbraut í Garðabæ, á móts við Vífilsstaðaspítala. Slysið er rakið til veikinda ökumannsins, en hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.43 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut í Reykjavík, á móts við Bústaðaveg. Í aðdragandanum var bifreið ekið norður Reykjanesbraut og aftan á aðra, sem kastaðist áfram á þá þriðju. Báðar fremri bifreiðarnar voru kyrrstæðar á gatnamótunum þegar áreksturinn varð. Tveir voru fluttir á slysadeild og sá þriðji ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.