30 Maí 2023 15:39
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. maí, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 22. maí. Kl. 15.46 varð árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á gangbraut við gatnamót Barónsstígs og Bergþórugötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið suður Barónsstíg, en rafmagnshlaupahjólinu hjólað vestur yfir gangbrautina. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.14 var bifreið ekið á miðrein suður Reykjanesbraut í Reykjavík, á móts við Garðheima, og aftan á vinnuvél, sem var ekið á sömu akrein í sömu átt. Talið er að ökumaður bifreiðarinnar hafi fengið aðsvif í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 25. maí kl. 23.16 missti ökumaður bifhjóls stjórn á því á göngu- og hjólastíg, sem liggur frá Þverholti að Langatanga í Mosfellsbæ, bak við Bjarkarholt. Við það fór bifhjólið utan í ljósastaur og féll ökumaðurinn í jörðina. Hann var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 26. maí kl. 10.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sægarða og Vatnagarða í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Sægarða, en hinni austur Vatnagarða svo árekstur varð þeim. Stöðvunarskylda er fyrir umferð um Vatnagarða gagnvart umferð um Sægarða. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.