6 September 2023 12:20
Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. ágúst – 2. september, en alls var tilkynnt um 48 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 27. ágúst kl. 14.55 var bifreið ekið á vegfaranda á athafnasvæði bílaþvottastöðvar á Fiskislóð í Reykjavík. Hann var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 28. ágúst kl. 11.30 var bifhjóli ekið vestur Miklubraut í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbraut, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á því og féll í götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 29. ágúst. Kl. 1.09 var bifreið ekið í frárein frá Reykjanesbraut í Reykjavík, norður við Álfabakka, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni og hafnaði bifreiðin utan vegar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.14 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli þegar hann hjólaði austur göngustíg að Bústaðavegsbrú i Reykjavík. Lögreglan flutti hann á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 30. ágúst. Kl. 7.48 var bifhjóli ekið suður Vesturlandsveg í Mosfellsbæ, í hringtorg við Þingvallaveg, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á því og féll með hjólinu utan í vegrið. Hann var fluttur á slysadeild. Mikil rigning var þegar slysið varð. Kl. 12.21 var bifreið ekið vestur Hverfisgötu í Reykjavík og á rafmagnshlaupahjól á gangbraut, sem var hjólað norður Barónsstíg inn á Hverfisgötu. Kyrrstæður strætisvagn, á austurleið, var við gangbrautina og fór hjólreiðamaðurinn aftan við vagninn í aðdraganda slyssins og inn á gatnamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.07 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á bifreiðastæði við Skeifuna í Reykjavík. Í aðdragandanum tók hjólreiðamaðurinn fast í frambremsu hjólsins til að forðast árekstur við bifreið, sem var ekið í veg fyrir hann. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimm umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 31. ágúst. Kl. 15.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Dalshrauns og Stakkahrauns í Hafnarfirði. Í aðdragandandum var annarri bifreiðinni ekið um Dalshraun en hinni um Stakkahraun, en biðskylda er gagnvart umferð um Stakkahraun. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 16.34 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á mótum Gullteigs og Silfurteigs í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem grunur er um að hafi verið undir áhrifum fíkniefna, var fluttur á slysadeild. Kl. 17.34 varð árekstur reiðhjóls og rafmagnshlaupahjóls á hjólastíg við Sæbraut við Höfða, sjávarmegin, í Reykjavík, en hjólin komu úr gagnstæðri átt. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 21.19 var bifreið ekið norður Svarthöfða í Reykjavík, að Sævarhöfða, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni svo bifreiðin hafnaði á umferðareyju og ljósastaur. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.36 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Hamraborg í Kópavogi, á móts við bensinstöð sem þar er. Í aðdragandanum fór hann yfir hraðahindrun, missti þar stjórn á hjólinu og fór utan í vegkant með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn, sem grunur er um að hafi verið undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 2. september kl. 4.06 var bifreið ekið á öfugum vegarhelmingi norður Reykjanesbraut í Kópavogi og utan í tvær bifreiðar, sem komu úr gagnstæðri átt. Tjónvaldurinn, sem hafði þegar verið sviptur ökuréttindum, var handtekinn, en hann er jafnframt grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Hinir ökumennirnir voru báðir fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.