17 Október 2023 16:04
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. október, en alls var tilkynnt um 40 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 9. október kl. 5.56 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Egilshöll í Reykjavík. Þar eru yfirborðsmerkingar fyrir gangbraut, en engin umferðarmerki uppi. Ökumaðurinn sagði flutningabifreið, sem á undan fór, hafa byrgt honum sýn þegar ekið var inn á gönguleiðina. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 10. október kl. 13.51 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á gangbraut á Borgavegi í Reykjavík, við Spöngina. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 11. október. Kl. 11.39 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Reykjavík og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum við Bústaðaveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 11.51 var bifreið ekið austur Borgartún í Reykjavík og beygt áleiðis inn á bifreiðstæði á við götuna þegar rafmagnshlaupahjóli var ekið á hjólastíg þar meðfram svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.54 var vinnuvél ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík og á umferðarbrú, sem liggur yfir veginum (Stekkjarbakkabrú). Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 14. október. Kl. 2.19 hafnaði bifreið utan vegar við Bláfjallaveg, nálægt Bláfjallaskóla, og valt. Snjór og hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 5.37 hafnaði bifreið utan vegar við Vesturlandsveg, á móts við Blikadalsá, og valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.24 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á gatnamótum Víkurvegar og Reynisvatnsvegar í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild, en vitni sögðu hann hafa farið gegn rauðu ljósi í aðdraganda slyssins. Og kl. 23.27 var bifreið ekið utan í umferðarmerki á Hvaleyrarvatnsvegi í Hafnarfirði, en í framhaldinu hafnaði hún utan vegar. Ökurmaður og farþegi leituðu á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.